Erlent

Kínverjar lentu vélmenni á Mars

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn Geimvísindastofnunar Kína fögnuðu lendingunni ákaft.
Starfsmenn Geimvísindastofnunar Kína fögnuðu lendingunni ákaft. AP/ihnua

Kínverjar hafa lent fyrsta lendingarfari sínu á Mars og urðu þeir þar með önnur þjóðin í heiminum sem tekst það. Vélmennið Zhurong er þegar byrjað að senda gögn til jarðarinnar eftir að hafa lent seint í gærkvöldi, að íslenskum tíma.

Zhurong hafði verið á braut um Mars í nokkra mánuði í geimfarinu Tianwen 1 og var farinu svo lent á stað sem kallast Utopia Planitia. Vélmennið er enn inn í lendingarfarinu og mun vera þar í einhvern tíma á meðan tilraunir fara fram á virkni þess.

Önnur ríki hafa lent geimförum á Mars, eins og Sovétríkin, en lendingar þeirra geimfara hafa misheppnast og þau ekki sent gögn til jarðarinnar. Geimvísindastofnun Evrópu hefur sent tvö lendingarför til Mars en bæði brotlentu. Bandaríkin hafa lent níu lendingarförum á Mars frá 1976.

Kínverjar hafa á síðustu vikum og mánuðum náð þó nokkrum áföngum í geimnum. Skammt er síðan þeir skutu fyrsta hluta nýrrar geimstöðvar á loft og hafa þeir einnig náð í jarðvegssýni frá tunglinu, svo eitthvað sé nefnt.

Ríkismiðillinn Xinhua segir lendingarferlið hafa tekið um þrjár klukkustundir en hættulegasti hluti lendingarinnar einungis níu mínútur. Lendingarfarið hafi fyrst notað andrúmsloft Mars til að hægja ferðina úr 4,8 kílómetrum á sekúndu í um 460 metra á sekúndu. Þá hafi stórar fallhlífar hægt enn frekar á því. Svo hafi litlar eldflaugar verið notaðar til að lenda farinu.

Hér má sjá myndband þar sem lendingarferlið er sýnt.

Þegar vélmennið Zhurong yfirgefur lendingarfarið, stendur til að framkvæma rannsóknir yfir minnst níutíu mars-daga tímabil. Það samsvarar um 93 dögum á jörðinni. Markmið er að leita að vatni og skoða úr hverju Mars er.

Samkvæmt frétt Space.com telja vísindamenn að mögulega megi finna ís undir yfirborði Utopia Planitia.

Zhurong, sem er nefnt eftir fornum kínverskum eldguði, býr yfir sex tækjum. Þar á meðal eru tvær myndavélar, neðanjarðarratsjá, leysigeisli og tæki sem eiga að rannsaka andrúmsloft Mars.


Tengdar fréttir

Öngþveiti á sporbraut um Mars

Ákveðið öngþveiti verður á sporbraut um Mars í næstu viku þegar þrjú ný geimför hafa náð sporbraut um plánetuna. Kínverskt geimfar náði á braut um Mars í gær en þar var fyrir geimfar frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.