Fótbolti

Á­fall fyrir Úlfana

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pedro Neto [t.v.] verður ekki meira með Wolves á leiktíðinni og mun einnig missa af upphafi næstu leiktíðar. Rúben Neves [t.h.] er með kórónuveiruna.
Pedro Neto [t.v.] verður ekki meira með Wolves á leiktíðinni og mun einnig missa af upphafi næstu leiktíðar. Rúben Neves [t.h.] er með kórónuveiruna. EPA-EFE/Andy Rain

Lið Wolves í ensku úrvalsdeildinni hefur orðið fyrir enn einu áfallinu á leiktíðinni. Nú er ljóst að Pedro Neto verður ekki meira með liðinu á þessari leiktíð og þá er miðjumaðurinn öflugi Rúben Neves með kórónuveiruna.

Mikil meiðsli hafa herjað á leikmannahóp Wolves, líkt og annarra liða deildarinnar, í vetur. Nuno Espírito Santo vill hafa fámennan en þéttan kjarna af leikmönnum og því má Wolves ekki við meiðslum sem þessum.

Raúl Jiménez, aðalframherji liðsins, höfuðkúpubrotnaði fyrr á leiktíðinni og hefur sóknarleikurinn gengið brösuglega síðan. Hann er einn sex leikmanna sem er á meiðslalistanum að svo stöddu.

Að missa Neto hjálpar ekki til en hann verður frá næsta hálfa árið eða svo vegna hnémeiðsla. Hann meiddist í 1-0 sigrinum á Fulham nýverið og þarf að fara í aðgerð til að fá meina sinna bót.

Neves er ekki þekktur fyrir að skora mikið af mörkum en hann er þekktur fyrir sín þrumuskot og er mikilvægur hlekkur í liði Wolves enda á góðum degi einn af betri miðjumönnum deildarinnar. Nú er ljóst að hann mun missa af næstu leikjum gegn Sheffield United og Burnley.

Wolves er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 38 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.