Innlent

Gætu tengst ferðalang sem mögulega smitaðist aftur á Íslandi

Sunna Sæmundsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Hópur á Suðurlandi greindist með kórónuveiruna utan sóttkvíar í gær. Smitin tengjast hugsanlega landamærasmiti, þar sem mögulegt er að einstaklingur með mótefni hafi smitast aftur af veirunni eftir komuna hingað til lands.

Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við fréttastofu. Ellefu greindust með kórónuveiruna í gær, þar af sex utan sóttkvíar. Af þessum sex voru fimm á Suðurlandi en einn á höfuðborgarsvæðinu.

„Í þessu er hópur á Suðurlandi þar sem smit kom upp hjá fimm einstaklingum og það tengist hugsanlega landamærasmiti. Þurfum að vinna það betur bæði í raðgreiningu og í rakningu,“ segir Þórólfur.

Með vottorð um fyrri sýkingu

Þórólfur segir að smitin megi hugsanlega rekja til einstaklings sem kom til landsins áður en núverandi fyrirkomulag sýnatöku á landamærum tók gildi. Hann hafi verið með vottorð um fyrri sýkingu erlendis.

„Og það er mögulegt að viðkomandi hafi annað hvort komið með veiruna með sér eða smitast hér eftir heimkomuna til Íslands. Erum að skoða það og raðgreiningin mun hjálpa okkur með það.“

Hefur hann þá smitast aftur með mótefni?

„Það er möguleiki að hann hafi smitast aftur. Viðkomandi er með mótefni en það liggur ekki fyrir á þessari stundu,“ segir Þórólfur.

Ekki liggur fyrir hvort margir þurfi að fara í sóttkví vegna þessa en Þórólfur telur að það verði örugglega einhverjir. 

„Þetta segir bara að veiran er í samfélaginu og hópsmit stór eða lítil í umfangi geta skotið upp kollinum og geta breiðst út og orðið af stærri bylgju. Þess vegna þurfum við að taka þetta mjög alvarlega.“


Tengdar fréttir

Tugir þúsunda bóluefnaskammta væntanlegir

Von er á tæplega 65.300 bóluefnaskömmtum frá fjórum framleiðendum til landsins í þessum mánuði. Mánaðarleg afhending á bóluefni eykst um 160% í þessum mánuði borið saman við fyrstu þrjá mánuði ársins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×