Innlent

Gular við­varanir um Páska­helgi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gular viðvaranir verða í gildi víðast hvar á landinu yfir helgina.
Gular viðvaranir verða í gildi víðast hvar á landinu yfir helgina. Veðurstofa Íslands

Gul veðurviðvörun verður í gildi á nær öllu landinu á morgun og sunnudag og verður fólk sem er á ferðinni í tilefni Páska því að fara varlega á ferðalögum sínum um landið. Viðvörunin gildir á Faxaflóa, Ströndum og Norðvesturlandi, Norðausturlandi, Austurlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi.

Viðvararnir taka gildi klukkan sex í fyrramálið og gilda til tólf á miðnætti. Þá taka þær aftur gildi klukkan sex á sunnudagsmorgun og gilda til klukkan tólf á miðnætti á sunnudag.

Á Suðausturlandi má búast við norðvestan átt, 18 til 25 metrum á sekúndu og vindhviðum upp í allt að 35 til 45 metra á sekúndu á sunnudag. Ökumenn eru beðnir um að fara varlega, einkum ef ökutæki taka á sig mikinn vind. Þá má búast við norðvestanhríð á Austurlandi og Austfjörðum á sunnudagskvöld, 15-25 metrum á sekúndu, éljagangi eða skafrenning og hvassast syðst á fjörðunum. Vindhviður gætu verið á bilinu 25 til 45 metrar á sekúndu sunnan til. Lítið skyggni með köflum og erfið akstursskilyrði.

Á Norðurlandi eystra má búast við suðvestan stormi fyrri hluta morgundags, með 15 til 23 metrum á sekúndu og hvassast á Tröllaskaga. Reikna má með að vindhviður nái upp í allt að 35 til 45 metra á sekúndu við vestanverðan Eyjafjörð. Fólk er beðið um að tryggja lausamuni utandyra og aki samkvæmt aðstæðum.

Annað kvöld verður norðanhríð á Norðurlandi eystra, norðan 10 til 15 metrar á sekúndu og snjókoma eða stafrenningur. Ört kólnandi veður og líklega mikil hálka. Ökumenn eru beðnir um að fara varlega ekki síst á fjallvegum.

Á ströndum og Norðurlandi vestra verður suðvestan stormur fyrri hluta morgundags, suðvestan 15 til 23 metrar á sekúndu en hvassast á Tröllaskaga og í Skagafirði. Reikna má með vindhviðum að 35 metrum á sekúndum þar. Þá verður norðanhríð annað kvöld, 10 til 15 metrar á sekúndu og snjókoma eða skafrenningur. Veður fer ört kólnandi og líklega verður mikil hálka. Ökumenn eru beðnir að fara varlega, ekki síst á fjallvegum.

Við Faxaflóa mun ganga í suðvestan og síðan vestan 15 til 23 metra á sekúndu með rigningu eða súld síðdegis á morgun. Búast má við lélegu skyggni á gosstöðvum og ekki er ferðaveður þar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.