Innlent

Telja töluverðar líkur á að alvarleg afbrigði fuglaflensu berist til landsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
MAST segir að ekki sé talið að mönnum stafi mikil hætta af umræddum afbrigðum fuglaflensuveirunnar og þá stafi ekki smithætta af neyslu alifuglaafurða.
MAST segir að ekki sé talið að mönnum stafi mikil hætta af umræddum afbrigðum fuglaflensuveirunnar og þá stafi ekki smithætta af neyslu alifuglaafurða.

Sérfræðingahópur hefur komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur séu á því að alvarleg afbrigði fuglaflensuveirunnar berist hingað með farfuglum, sem farnir eru að streyma til landsins.

Viðbúnaðarstig hefur verið aukið vegna þessa en það þýðir að allir fulgar í haldi þurfa tímabundið að vera hafðir í yfirbyggðum gerðum þar sem villtir fuglar komast ekki inn, eða í fuglaheldum húsum.

Í frétt á vef Matvælastofnunar segir að alvarleg afbrigði fuglaflensuveiru hafi meðal annars greinst á þeim slóðum þar sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til. Þá greindi Bændablaðið frá því í morgun að fuglaflensa hefði greinst á kalkúnabúum í Danmörku.

„Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi. Var það gert á grundvelli tillögu Matvælastofnunar til ráðuneytisins vegna mikillar útbreiðslu fuglaflensu í Evrópu í vetur. Alvarleg afbrigði fuglaflensuveiru hafa m.a. greinst á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til,“ segir í frétt MAST.

Þar segir einnig að afleiðingar sjúkdómsins séu alvarlegar en stór hluti fuglanna geti drepist, aflífa þurfi alla fugla á búum þar sem fuglaflensa greinist og þá þurfi að leggja ýmsar takmarkanir á starfsemi á stór svæði umhverfis viðkomandi bú.

Óvíst sé hvenær óhætt verði að aflétta auknum sóttvarnaráðstöfunum en smithættan sé endurmetin reglulega. Allir sem halda alifugla eru hvattir til að skrá fuglahald sitt og þá er því beint til fólks að tilkynna fund dauðra fugla.

Ítarlegar upplýsingar má finna á vef MAST.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×