Sport

Galið að enn sé komið fram við íþróttakonur eins og þær séu litlir karlmenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Hauka og Vals í Olís deildinni í vetur. Valskonan Auður Ester Gestsdóttir reynir hér að stöðva Elínu Klöru Þorkelsdóttur hjá Haukum.
Frá leik Hauka og Vals í Olís deildinni í vetur. Valskonan Auður Ester Gestsdóttir reynir hér að stöðva Elínu Klöru Þorkelsdóttur hjá Haukum. Vísir/Hulda Margrét

Íslenskur dósent í íþróttafræði vinnur að því að koma upp rannsóknarsetri sem sérhæfir sig í íþróttaþjálfun kvenna.

Aron Gauti Laxdal tekur þátt í brautryðjandastarfi í Noregi þessa dagana en hann er dósent í íþróttafræði við Háskólann í Agder í Noregi sem vinnur að verkefni sem hefur vakið mikla athygli og vakið gríðarlegan áhuga á meðal fremstu íþróttakvenna Noregs.

Aron Gauti ræddi við Síðdegisútvarpið á Rás 2 um málið en hafði áður birt stuttan pistil um málið á Twitter síðu sinni.

Aron bendir á að þær íþróttakonur sem hafa aðlagað æfingaálag að tíðahringnum séu að ná sínum besta árangri í íþróttum. Þær stundi þá erfiðar æfingar í kringum egglos, þegar framleiðsla estrógens og prógesteróns eru í hámarki og stundi svo auðveldari æfingar í kringum blæðingar þegar frammistöðugetan lækkar og Aron bendi á að meiðsli séu tíð hjá íþróttakonum á þeim tíma.

Íslenski íþróttafræðingurinn segir meðal annars í Twitter-færslu sinni að það sé galið að komið sé fram við íþróttakonur eins og þær séu litlir karlar. Aron bendir á mikilvægi þess að taka tillit til líkamlegrar sérstöðu kvenna við æfingar.

Besta dæmið um góðan árangur íþróttakvenna sem huga að þessu við æfingar sínar er Tiril Eckhoff, ríkjandi heimsmeistari í skíðaskotfimi. Eckhoff hefur náð sínu besta ári í skíðaskotfiminni eftir að hafa aðlagað æfingaálagið að tíðahringnum.

„Það hefur komið ákall frá íþróttakonum hér í Noregi um að framkvæma fleiri rannsóknir á kvenkyns íþróttafólki,” segir Aron í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2 og hann og deildin hans við Háskólann í Agder í Noregi ætla nú að taka þetta skref að setja upp rannsóknarsetur sem sérhæfir sig í íþróttaþjálfun kvenna.

Aron Gauti segir að skólinn hafi fengið frábær viðbrögð við áætlunum sínum og það líti út fyrir að hægt verði að safna þeim pening sem þarf í slíkt rannsóknarsetur. Peningarnir eru jafnan til fyrir rannsóknir á körlum í íþróttaheiminum en íþróttakonurnar þurfi síðan að fylgja niðurstöðum um slíkum rannsóknum og aðlaga þær að sér.

„Við erum ennþá bara að stíga okkur fyrstu skref í þessu en allir hafa tekið þessu hrikalega vel,” segir Aron. Hann segir deildina hreinlega vera að drukkna úr fyrirspurnum frá þekktum norskum íþróttakonum sem vilja vera með í rannsóknunum. „Norska íþróttasambandið og allskonar hagsmunasamtök hafa sýnt þessu mikinn áhuga og við erum mjög bjartsýn á að fá þá fjármuni sem þarf til að koma þessu í gang,” segir Aron í viðtalinu á Rás tvö í gær en það má finna meira um það með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×