Fótbolti

Stuðningsmennirnir hótuðu öllum leikmönnum liðsins lífláti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var mikill hiti meðal stuðningsmanna Colo Colo liðsins sem er í nýrri stöðu.
Það var mikill hiti meðal stuðningsmanna Colo Colo liðsins sem er í nýrri stöðu. Getty/Marcelo Hernandez

Það er ekkert grín að vera leikmaður Colo-Colo þessa dagana. Það gengur lítið inn á vellinum og utan hans þurfa leikmenn að þola morðhótanir frá stuðningsmönnum.

Colo-Colo er fornfrægt félag í Síle og vann meistaratitilinn í 32. skiptið fyrir fjórum árum síðan. Nú er staðan allt önnur.

„Vinnið leikinn eða við drepum ykkur,“ var áletrunin á fánanum sem öfgastuðningsmenn hengdu upp á æfingasvæði liðsins á dögunum. Leikurinn sem um ræðir var á móti Universidad Concepción.

Colo-Colo hefur aldrei fallið úr efstu deild í 96 ára sögu félagsins en leikurinn við Concepcion var upp á líf eða dauða fyrir bæði félögin.

Það var örugglega mjög sláandi fyrir leikmenn liðsins að sjá þennan fána á síðustu æfingu fyrir leikinn en þeir hafa um leið fengið mikinn stuðning frá öðrum aðdáendum sem voru líka á svæðinu og óskuðu sínum mönnum góðs gengis í þessum mikilvæga leik.

Meðal þeirra sem hafa birt myndbönd á samfélagsmiðlum og sent félaginu stuðning er Arturo Vidal hjá Internazionale á Ítalíu en hann hóf feril sinn hjá félaginu og fór þaðan til Evrópu.

Esteban Paredes, fyrirliði Colo-Colo, þakkaði þeim stuðningsmönnum sem hafa stutt við liðið í myndbandi á miðlum félagsins.

„Við ætlum að gefa allt sem við eigum á vellinum og það er eitthvað sem við verðum að geta. Með fullt af jákvæðri orku og hvatningu þá komust við saman út úr þessu,“ sagði Esteban Paredes.

Það fylgir sögunni að Colo-Colo vann leikinn 1-0 og bjargaði sér frá falli. Sigurmarkið skoraði hinni nítján ára gamli Pablo César Solari á 19. mínútu leiksins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.