Erlent

Vilja múlbinda bloggara og áhrifavalda í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Kínverjar á netinu.
Kínverjar á netinu. AP/Andy Wong

Kínverskir bloggarar og áhrifavaldar munu í næstu viku þurfa leyfi frá yfirvöldum landsins til að tjá sig um ýmis málefni. Markmið þessarar herferðar er að stýra almenningsáliti í Kína.

Reglur sem settar voru á árið 2017 gerðu öllum þeim sem vildu tjá sig um stjórnmál og málefni hernaðar, að hafa leyfi frá yfirvöldum til að gera það. Þeim reglum hefur þó lítið verið framfylgt, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Nú hafa ráðmenn þó lagt á nýjar reglur um að þeir sem vilji tjá sig um heilbrigðismál, efnahagsmál, menntamál og málefni dómstóla einnig að fá leyfi yfirvalda. Mögulegt er að einungis ríkismiðlar og málpípur yfirvalda muni fá leyfi til að tjá sig og þar með komast í gegnum ritskoðun kínverskra yfirvalda.

Ma Xiaolin hefur lengi skrifað um málefni Mið-Austurlanda á Weibo, kínverskum samfélagsmiðli, og hafa tvær milljónir manna fylgst með skrifum hans. Nú nýverið sagði hann þó frá því að starfsmenn Weibo hefðu haft samband við sig og beðið hann um að deila ekki lengur skrifum sínum um stjórnmál, efnahagsmál og hernað.

Wang Gaofei, forstjóri Weibo, svaraði færslu Ma og sagði að fólk mætti áfram tjá sig um fréttir ríkismiðla Kína. Bloggarar mættu hins vegar ekki segja fréttir sjálfir.

Herða reglur vagna faraldursins

Breytingarnar eru í takt við áherslur ríkisstjórnar Xi Jinpin, forseta Kína, en faraldur nýju kórónuveirunnar er talinn hafa hraðað reglunum. Fyrstu fréttirnar af faraldrinum kom að miklu leyti frá netverjum sem deildu fréttum og orðrómum sín á milli.

Í yfirlýsingu frá netöryggisstofnun Kína, sem AP vitnar í, segir að breytingarnar eigi að stýra almenningsáliti í rétta átt.

Stofnunin tilkynnti í upphafi mánaðarins að í febrúar færi fram hreinsun á kínverskum leitarvélum og samfélagsmiðlum, í takt við nýju reglurnar.

Einn viðmælandi AP, prófessor við Berkley háskólann sem sérhæfir sig í ritskoðun segir að um stærðarinnar herferð sé að ræða. Hún beinist ekki gegn fólki sem hafi verið að talað gegn yfirvöldum í Kína, heldur almennum netverjum sem hafi jafnvel passað sig á því að tala ekki gegn yfirvöldum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×