Erlent

Tugi heimila sópaði út á haf í Alaska

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Kipnuk í Alaska þar sem sjór gekk langt upp á land.
Frá Kipnuk í Alaska þar sem sjór gekk langt upp á land. AP/Þjóðavarðlið Alaska

Rúmlega þúsund manns hafa verið og verða flutt á brott frá bæjum og þorpum í Alaska eftir að öflugt óveður lék svæðið grátt á undanförnum dögum. Um er að ræða einhverja umfangsmestu brottflutninga í sögu Alaska en fjölmörg hús eyðilögðust í óveðrinu og mörg þeirra enduðu út á hafi.

Í einhverjum tilfellum var enn fólk í húsunum en að minnsta kosti einn er látinn og tveggja er saknað.

Neyðarskýli sem opnuð voru fylltust mjög hratt en mörg af umræddum samfélögum eru eingöngu aðgengileg úr lofti eða yfir sjó. Því hefur verið brugðið á það ráð að flytja rúmlega þúsund manns frá þorpunum Kipnuk og Kwigillingok.

Á því svæði hækkaði sjávarstaða um að minnsta kosti sex metra, samkvæmt frétt CNN.

Um sjö hundruð manns bjuggu í Kipnuk en um 120 heimili eru sögð hafa eyðilagst þar. Vitað er til þess að á fjórða tug heimila ráku á brott í Kwigillingok.

Mörg heimili eru sögð í svo slæmu ásigkomulagi að ekki sé hægt að búa í þeim og þar sem stutt er í veturinn er sömuleiðis ólíklegt að hægt sé að laga mörg þeirra í bili. Þar að auki skemmdist mikið af matvælum sem íbúar höfðu safnað sér og átti að koma þeim gegnum veturinn. Var því ákveðið að flytja fólk á brott.

AP fréttaveitan segir embættismenn vinna með Rauða krossinum að því að koma öllu fólkinu í skjól. En búist er við því að brottflutningarnir muni standa yfir næstu daga.

Íbúar segjast í samtali við fréttaveituna staðráðnir í að endurbyggja heimili sín og bæi.

„Í okkar þorpi, segjum við að við ekkert geti brotið okkur á bak aftur. Við búum yfir styrk og stolti innfæddra. Þetta er það erfiðasta sem við höfum gengið gegnum,“ sagði Alexie Stone.

„Ef við þurfum að byrja upp á nýtt, þá þurfum við að byrja upp á nýtt.“

Frá bænum Kotzebue.AP/Yfirvöld í Alaska

Sjór gekk víða langt inn á land.AP/Yfirvöld í Alaska



Fleiri fréttir

Sjá meira


×