Innlent

Segir nauð­syn­legt að byggja at­vinnu­líf á Seyðis­firði aftur upp

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á Seyðisfirði.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á Seyðisfirði. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra segir að atvinnulíf á Seyðisfirði hafi orðið fyrir verulegu áfalli vegna náttúruhamfaranna þar. Ríkisstjórnin hafi því ákveðið að styðja við uppbygginu þess á næstu þremur árum.

Forsætisráðherra segir að hreinsunarstarf og tjónamat eftir náttúruhamfarirnar á Seyðisfirði í desember ganga vel.

„Hreinsunarstarf og tjónamat stendur enn en þeirri vinnu miðar mjög vel áfram og við búumst við að henni verði lokið í mars,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Í fréttamiðlinum Austurfrétt í vikunni kemur fram að fjöldi fyrirtækja á Seyðisfirði hafi orðið fyrir beinum og óbeinum áhrifum af skriðuföllunum þar. Mörg fyrirtæki hafi til að mynda verið með starfsemi á skriðusvæðinu en stærsta einstaka tjónið hafi orðið hjá fyrirtækinu Stjörnublæstri. Þá hafi orðið mikið tjón hjá Silfurhöllinni þar sem 11 manns starfa.

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að gera samkomulag til þriggja ára við sveitarfélagið Múlaþing og Austurbrú, um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði.

„Það er fyrirhugað að leggja 215 milljónir inn í tiltekin verkefni því að það er alveg ljóst að þessar hamfarir snúast ekki bara um hreinsunarstarf og tjónamat heldur hefur atvinnulífið á Seyðisfirði orðið fyrir verulegu áfalli og við teljum nauðsynlegt að byggja það upp aftur,“ segir Katrín.

Vandinn snúi meðal annars að rekstrarumhverfi og húsnæðismálum, en hamfarirnar höfðu veruleg áhrif á fjölda fyrirtækja sem sum misstu húsnæðið og hætta sé á að einhver þeirra hverfi úr bænum.

„Við munum bjóða upp á rekstrarráðgjöf fyrir þá sem hafa verið með atvinnustarfsemi á svæðinu og styrkja til að hægt sé að fara í uppbyggingu aftur þannig að þetta verða svona margháttuð smærri verkefni,“ segir Katrín.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.