Erlent

Oftar greint frá hósta, hálssærindum og þreytu í tengslum við B117

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk bíður bólusetningar í dómkirkjunni í Salisbury. Afbrigðið B117, sem er mun meira smitandi en gamla afbrigðið, er nú orðið ráðandi í Englandi.
Fólk bíður bólusetningar í dómkirkjunni í Salisbury. Afbrigðið B117, sem er mun meira smitandi en gamla afbrigðið, er nú orðið ráðandi í Englandi. epa/Neil Hall

Hósti, hálssærindi og þreyta virðast tíðari meðal þeirra sem smitast af breska afbrigðinu af Covid-19, ef marka má könnun bresku þjóðskrárinnar. Vísindamenn eru þó ekki á einu máli um hvort niðurstöðurnar fást staðist.

Könnun Office for National Statistics (ONS) leiddi í ljós að þeir sem höfðu smitast af nýja afbrigðinu, sem hefur verið kallað B117, sögðust hafa fundið til fleiri einkenna en þeir sem smituðust af gamla afbrigðinu.

Þegar svörin voru borin saman sögðust 35 prósent þeirra sem smitast höfðu af B117 hafa fengið hósta, samanborið við 27 prósent þeirra sem höfðu smitast af gamla afbrigðinu. Þá sögðust fleiri hafa þjáðst af hálssærindum, þreytu og vöðvaverkjum.

Færri höfðu hins vegar upplifað breytingar á lyktar- og bragðskyni.

Sérfræðingar ósammála um gildi niðurstaðanna

Ráðgjafanefnd bresku ríkisstjórnarinnar sagði í síðustu viku að nýja afbrigði leiddi eftir til vill til 30 til 40 prósent fleiri dauðsfalla en sumir sérfræðingar segja of snemmt að segja til um hvort það sé raunverulega hættulegra en gamla afbrigðið.

Ef rétt reynist kann þetta að tengjast stökkbreytingu sem kölluð er N501Y, sem auðveldar vírusnum að smita frumur og gerir það að verkum að B117 er 50 til 70 prósent meira smitandi.

Guardian hefur eftir Lawrence Young, prófessor við University of Warwick, að það sé mögulegt að þar sem B117 sé meira smitandi sé veirumagnið í líkamanum meira, sem aftur gæti haft áhrif á það hvaða einkenni koma fram.

Ian Jones, prófessor við Reading University, dregur hins vegar í efa að niðurstöðurnar séu marktækar. „Vírusinn smitar sömu frumur með sömu afleiðingum,“ segir hann. Vísindalega séð fái hann niðurstöður könnunarinnar ekki til að ganga upp.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×