Sport

Tom Brady fær 65 milljóna bónusgreiðslu fyrir sigurinn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Brady fagnar sigri á Green Bay Packers í gær.
Tom Brady fagnar sigri á Green Bay Packers í gær. AP/Morry Gash

65 milljónir fyrir eina góða kvöldstund. Tom Brady fagnaði ekki bara sigri á Green Bay Packers í nótt heldur einnig veglegri bónusgreiðslu inn á bankareikninginn sinn.

Tom Brady er búinn að koma Tampa Bay Buccaneers alla leið í Super Bowl leikinn á sínu fyrsta tímabili með félaginu.

Brady gerði tveggja ára samning við Buccaneers síðasta sumar eftir að hafa spilað fyrstu tuttugu tímabil ferilsins með New England Patriots.

Hinn 43 ára gamli Tom Brady er fyrir löngu búinn að slá flest met í boði í úrslitakeppni NFL-deildarinnar og stefnir nú á sjöunda NFL-titilinn. Þetta verður hans tíundi Super Bowl en enginn annar leikstjórnandi hefur spilað í fleiri en fimm.

Brady hefur unnið allt og það margoft en það minnkar ekki hungur hans í meiri fótbolta og fleiri titla þótt allir jafnaldrar hans séu löngu búnir að leggja skóna á hilluna.

Brady er heldur ekki alveg að gera þetta ókeypis.

Tom Brady fær fimmtán milljónir Bandaríkjadala í hrein laun frá Tampa Bay Buccaneers en hann fékk að auki tíu milljónir dollara fyrir að komast í liðið. 25 milljónir Bandaríkjadala eru 3,2 milljarðar íslenskra króna.

Brady er líka með alls konar frammistöðubónusa fyrir bæði sjálfan sig og liðið.

Brady fékk þannig fimm hundruð þúsund dollara fyrir sigurinn á Green Bay Packers í nótt eða 65 milljónir íslenskra króna.

Hann hefur þegar unnið sér 1,75 milljónir dollara fyrir að koma Tampa Bay Buccaneers alla leið í úrslitaleikinn um titilinn. Hann fær fimm hundruð þúsund dollara til viðbótar ef liðið verður meistari.

Vinni Tampa Bay Buccaneers NFL-titilinn þá mun Brady því fá samtals 2,25 milljónir í bónusgreiðslur eða 291 milljón í íslenskum krónum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×