Tónlist

„Sýndum þessu ást og unnum hart að þessu“

Sylvía Hall skrifar
Þeir félagar eru ólíkir tónlistarmenn að sögn Birnis, en höfðu þó báðir gaman af samstarfinu og lögðu allt í sölurnar við gerð lagsins. 
Þeir félagar eru ólíkir tónlistarmenn að sögn Birnis, en höfðu þó báðir gaman af samstarfinu og lögðu allt í sölurnar við gerð lagsins.  Aðsend

Tónlistarmennirnir Birnir og Páll Óskar sameina krafta sína í nýjum poppsmelli sem kemur út í dag. Lagið heitir Spurningar og verður tónlistarmyndband þess einnig frumsýnt í dag.

„Þetta er lag um ást og erfiðleika sem fylgja henni. Svo er þetta líka bara algjört smash popp lag, og tæklar það að vera í ástarsambandi eða vera ástfanginn eða skotinn. Þá geta í kjölfarið komið efasemdir,“ segir Birnir um nýja lagið í samtali við Vísi.

Lagið er upprunalega samið af honum og Þormóði Eiríkssyni pródúsent og lagahöfundi, sem hefur unnið með mörgum vinsælustu tónlistarmönnum landsins undanfarin ár. Það leið þó ekki á löngu þar til Páll Óskar kom inn í myndina. Lagið er gefið út af Sticky Records, plötuútgáfu Priksins.

„Ég gerði þetta lag með Þormóði, söng bara upprunalega demóið og datt Palli í hug - þetta var svolítið Pallalegt. Ég sendi honum demóið. Við höfðum aldrei unnið saman áður en þekktumst aðeins í gegnum tónlistina.“

„Ég söng bara upprunalega demóið og datt Palli í hug.“Aðsend

Ástríðan sameinar 

Birnir segir þá félaga ólíka en þeir finni þó sameiginlegan flöt í tónlistinni. Sjálfur hefur hann lengi verið aðdáandi Páls Óskars og gekk samstarfið afar vel.

„Þegar maður er í stúdíóinu með öðrum sem hefur ástríðuna, það sameinar mann. Við vorum fókuseraðir og sýndum þessu ást og unnum hart að þessu,“ segir Birnir. „Það var geðveikt að vinna með Palla.“

Birnir og Páll Óskar lögðu mikla ást í lagið. Aðsend

Leikstjóri myndbandsins er Magnús Leifsson sem hefur komið að gerð fjölda annarra tónlistarmyndbanda fyrir tónlistarmenn á borð við Of Monsters and Men, Hatara, Retro Stefson og Emmsjé Gauta. Að sögn Birnis fékk Magnús frjálsar hendur með myndbandið.

„Hann kom með þessa hugmynd og mig langaði alltaf að vinna með honum. Við vorum að velja lag og þetta lag bauð upp á svo skemmtilegt video. Að gera visual við þetta lag var áskorun en líka ógeðslega gaman.“

Myndbandið verður frumsýnt í Sambandsappinu klukkan 11:30 í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×