Íslenski boltinn

Atli Guðna leggur skóna á hilluna og nær ekki metinu hans Gumma Ben

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason í leik með FH á móti Stjörnunni.
Atli Guðnason í leik með FH á móti Stjörnunni. Vísir/Daníel Þór

Atli Guðnason hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en hann er sjöfaldur Íslandsmeistari og leikjahæsti leikmaður FH í efstu deild frá upphafi.

„Kæru FH-ingar. Nú er kominn tími til að setja punkt fyrir aftan mjög mörg skemmtileg ár og minningar sem ég mun eiga fyrir lífstíð," skrifar Atli Guðnason, sóknarleikmaður FH, í skilaboðum sem FH birtir á Facebook.

„Ég hef verið ótrúlega lánsamur með að taka þátt í velgengninni hjá félaginu mínu og geng mjög stoltur frá borði. Ég er þakklátur svo ótrúlega mörgum sem gerðu það að verkum að ég náði þeim árangri sem ég náði. Takk kærlega fyrir mig. Áfram FH. Atli Guðnason #11"

Atli skoraði 68 mörk og gaf 84 stoðsendingar í 285 leikjum með FH í úrvalsdeildinni en hann hefur komið að sjö af átta Íslandsmeistaratitlum félagsins.

Atli Guðnason vantaði eftir lokatímabilið aðeins þrjár stoðsendingar til að jafna stoðsendingamet Guðmundar Benediktssonar sem eru 87 stoðsendingar.

Atli náði því sumarið 2012 að verða Íslandsmeistari, markakóngur (12 mörk), stoðsendingakóngur (13 stoðsendingar) og besti leikmaður deildarinnar að mati leikmanna hennar. Hann var einnig valinn leikmaður ársins sumarið 2009.

Atli er líka sá leikmaður sem hefur bæði spilað flesta leiki (48) og skorað flest mörk (11) fyrir íslensk félög í Evrópukeppni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.