Innlent

Hefur ekki á­hyggjur af því að til­kynningarnar fæli fólk frá bólu­setningu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er bjartsýn á að Íslendingar þiggi bólusetningu við kórónuveirunni.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er bjartsýn á að Íslendingar þiggi bólusetningu við kórónuveirunni. Vísir/Vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ekki áhyggjur af því að tilkynningar um hugsanlegar aukaverkanir af bóluefni gegn kórónuveirunni hafi áhrif á vilja þjóðarinnar til að láta bólusetja sig. Miklu máli skipti fyrir samfélagið allt að bólusetning verði almenn.

Í morgun höfðu fjögur andlát verið tilkynnt til Lyfjastofnunar vegna mögulegra tengsla við bólusetningu. Engin augljós tengsl eru þó milli þessara aukaverkana og bólusetningar vegna undirliggjandi sjúkdóma viðkomandi einstaklinga.

Höfum verið mjög viljug til bólusetningar

Innt eftir því hvort hún hafi áhyggjur af því að þetta hefði áhrif á vilja fólks til að láta bólusetja sig segir Svandís að það geri hún ekki. Hún bendir á að alltaf sé haldið utan um tilkynningar af þessu tagi og að í umræddum tilvikum sé aðeins ákveðinn tímarammi, sem falli utan um bólusetningu og andlát.

„En samkvæmt upplýsingum er ekkert sérstakt sem bendir til þess að um orsakasamhengi sé að ræða. En auðvitað er full ástæða til að fara ofan í þau mál og það gerir Lyfjastofnun,“ segir Svandís.

„Ég hef ekki áhyggjur af því að það dragi úr viljanum til bólusetninga, á Íslandi höfum við verið mjög viljug til að fara í bólusetningar, og enn sem komið er lítur út fyrir að staðan sé þannig að við viljum taka þátt í því. Og það skiptir ekki bara máli fyrir okkur hvert og eitt heldur fyrir samfélagið allt að þátttakan sé almenn.“

Þorri íbúa verði bólusettur undir mitt ár

Greint hefur verið frá því að til dæmis í Bandaríkjunum sé til skoðunar að gefa fólki hálfan skammt af bóluefni Moderna með það að markmiði að hraða bólusetningarferlinu. Svandís segir að ekkert slíkt sé til skoðunar hér.

„Þetta er úrræði sem hefur verið gripið til í löndum þar sem faraldurinn er algjörlega stjórnlaus eða á mjög alvarlegum stað. Það er ekki raunin hér þannig að við förum bara eftir leiðbeiningum lyfjaframleiðanda í einu og öllu og gefum bæði fyrri og seinni skammt úr sömu sendingu, sem skiptir mjög miklu máli að gera,“ segir Svandís.

Þá gerir hún enn ráð fyrir að búið verði að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar í sumar.

„Já, ég held að við getum búið okkur undir það að undir mitt ár verðum við búin að bólusetja þorra íbúa landsins, sem er miðað við þau kaup sem við erum búin að tryggja okkur og miðað við þær áætlanir sem við höfum í hendi.“


Tengdar fréttir

Treysta á mat Evrópsku lyfja­stofnunarinnar

Íslensk heilbrigðisyfirvöld árétta að þau treysti á mat Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) á öryggi, gæðum og virkni bóluefna gegn kórónuveirunni. Þá benda stjórnvöld á að með tímabundnu neyðarleyfi, líkt og Bretland veitti fyrir notkun bóluefnis AstraZeneca, séu ekki gerðar jafnríkar kröfur til bóluefnanna og EMA gerir með skilyrtu markaðsleyfi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×