Enski boltinn

Rooney sá eini sem hefði komist í liðið 1966

Elvar Geir Magnússon skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney.

Sir Geoff Hurst telur að Wayne Rooney sé eini meðlimur enska landsliðsins sem er nægilega góður til að hafa komist í liðið sem vann heimsmeistaramótið 1966.

Hurst er sá eini sem skorað hefur þrennu í úrslitaleik heimsmeistaramóts. „Wayne er klárlega einn af tveimur eða þremur bestu leikmönnum heims," sagði Hurst.

„Hann er magnaður leikmaður sem hefur þróast svakalega síðustu tímabil. Hann er núna jafn ógnandi hvort sem hann er einn í fremstu víglínu eða með einhverjum öðrum. Það besta við hann er að hann getur spilað allstaðar."

„Margir leikmenn sem spila í dag hefðu ekki getað spilað leikinn eins og hann var þegar ég var að spila. Rooney hefði getað spilað í fremstu röð á hvaða tíma sem er. Hann er stórkostlegur leikmaður," sagði Hurst.

„Hann ólst upp sparkandi bolta í veggi. Hann er með frábæra tækni, í svakalegu formi og gríðarlega sterkur. Hann er líklega eini leikmaðurinn í dag sem hefði komist í sigurliðið okkar frá ´66. Hann væri þó ekki á undan mér í liðið," sagði Hurst kíminn.

„Ég hefði elskað það að fá að spila við hlið Wayne, við hefðum samsvarað hvor öðrum frábærlega þó hann sé betri leikmaður en ég var. Ég var aldrei heimsklassa leikmaður en hjá West Ham lærði ég að spila kringum heimsklassa menn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×