Fótbolti

Brasilía og Chile skiptast á Suður-Ameríkukeppnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óvíst er hvernig Neymar mun taka tíðindunum.
Óvíst er hvernig Neymar mun taka tíðindunum. Nordic Photos / Getty Images
Chile mun halda Suður-Ameríkukeppnina í knattspyrnu árið 2015 og Brasilía fjórum árum síðar, árið 2019. Forseti knattspyrnusambands Chile greindi frá þessu í gær.

Upphaflega átti Brasilía að halda keppnina árið 2015 en þeir eru sem kunnugt er gestgjafar HM í knattspyrnu ári fyrr. Þá fara Ólympíuleikarnir árið 2016 fram í Rio de Janeiro og því nóg um að vera í Brasilíu næstu árin.

Talið var að eitt stórmót til viðbótar á milli þessara stærstu íþróttaviðburða heimsins væri ekki ráðlegt. Því hefðu Brasilíumenn beðið Chile um að skipta.

„Ég er nýkominn frá Brasilíu þar sem við ákváðum að skiptast á árum," sagði Sergio Jadue forseti knattspyrnusambands Chile.

Knattspyrnuyfirvöld í Brasilíu hafa sætt töluverðri gagnrýni undanfarið vegna hægagangs í undirbúningi sínum fyrir HM 2014. Reuters-fréttastofan greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×