Sport

Búið að staðfesta bardaga Hafþórs og Eddie Hall í Las Vegas

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þetta verður einn rosalegur bardagi í Bandaríkjunum á næsta ári.
Þetta verður einn rosalegur bardagi í Bandaríkjunum á næsta ári. mynd/instagram-síða Hafþórs

Hafþór Júlíus Björnsson, Fjallið, tilkynnti á samfélagsmiðlum sínum nú rétt í þessu að búið væri að staðfesta boxbardaga hans gegn kraftajötninum Eddie Hall en bardaginn mun fara fram í Las Vegas í september á næsta ári.

Það er ljóst að það andar köldu á milli þeirra Hafþórs og Hall. Hafþór bætti met Hall í réttstöðulyftu um helgina og tók þar af leiðandi af honum heimsmetið er Fjallið kastaði upp 501 kílói á Dalveginum í Kópavogi.

Í viðtali eftir heimsmetið sagði Hafþór að hann væri búinn að fá ansi myndarlegt tilboð frá Core Sports. Tilboðið er talið að minnsta kosti hljóða upp á 150 milljónir króna en Hafþór sagðist vera tilbúinn að slá Hall í rot.

Hall var ekki lengi að svara fyrir sig og svaraði að hann myndi klárlega skrifa undir pappírana. Hann sagði að ósætti þeirra hafi byrjað á Sterkasta manni heims árið 2017 er Hafþór á að hafa sakað Hall um svindl.

Það er að minnsta kosti ljóst að það er ansi skrautlegur bardagi framundan í Los Angeles í september 2021 en á Instagram-síðu Hafþórs segir hann að næsta eitt og hálfa ár muni fara í undirbúning fyrir bardagann. Hann hefur nú þegar hafið æfingar.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×