Lífið

Felix og Greifarnir mætast í Popppunkti

Dr. Gunni segir að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af hlutleysi Felix þegar Greifarnir mæta; hann ráði hvort eð er engu í þáttunum.
Dr. Gunni segir að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af hlutleysi Felix þegar Greifarnir mæta; hann ráði hvort eð er engu í þáttunum.
„Við Felix [Bergsson] erum byrjaðir að bóka, það verða ýmsar kempur í þessum þáttum sem hafa ekki verið áður," segir Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni. Upptökur á sjöundu seríunni af Popppunkti hefjast 18. maí en þættirnir fara í loftið hinn 28. maí.

Þessi spurningakeppni íslenskra poppara hefur notið mikilla vinsælda, meira en hundrað þættir hafa verið framleiddir og það verður enginn hörgull á stórstjörnum í þessari þáttaröð.

Meðal þeirra sem taka þátt eru reynsluboltarnir í Mezzoforte en Gunnar tekur skýrt fram að þar sé um upphaflega liðsskipan að ræða. Þá hyggjast þungarokkarnir í Skálmöld og blússveitin Klassart láta ljós sitt skína, sem og Todmobile, en sú sveit skartar nú nýjum Eyþóri í broddi fylkingar, Eyþóri Inga sem sigraði bæði í Ladda-eftirhermukeppninni og Bandinu hans Bubba. Ekki má heldur gleyma Stjórninni, hljómsveitinni Valdimar, Melchior og leikkvennahljómsveitinni Heimilistónum.

Stóru tíðindin eru hins vegar þau að Greifarnir ætla að láta reyna á þekkingu sína og verður forvitnilegt að sjá þegar Felix og hljómsveitin endurnýja kynnin. Felix var sem kunnugt er söngvari sveitarinnar á velmektarárum hennar. „Hlutleysi spyrils verður ekkert hægt að draga í efa, Greifarnir eru fyrir löngu búnir að losa sig við Felix og svo ræður hann engu í þáttunum," segir Dr. Gunni.- fgg

Greifarnir eins og einhverjir muna best eftir þeim.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.