Fótbolti

Benni McCarthy ekki valinn í suður-afríska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benni McCarthy, leikmaður  Blackburn Rovers.
Benni McCarthy, leikmaður Blackburn Rovers. Mynd/AFP

Benni McCarthy, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Blackburn Rovers, hefur ekki verið valin í landslið Suður-Afríku fyrir Álfubikarinn í næsta mánuði en McCarthy er markahæsti landsliðsmaður þjóðarinnar frá upphafi með 31 mark í 76 landsleikjum.

Álfukeppnin fer fram í Suður-Afríku 14. til 28. júní en hún er lítil generalprufa fyrir HM í knattspyrnu sem fram fer í landsinu á næsta ári. Suður-Afríka er með Írak, Nýja Sjálandi og Evrópumeisturum Spánar í riðli. Í hinum riðlinum eru heimsmeistara Ítala, Bandaríkin, Brasilía og Egyptaland.

McCarthy mætti ekki í tvo vináttulandsleiki gegn Noregi og Portúgal í mars og sú ákvörðun er að koma í bakið á honum núna. Hann vildi þá safna kröftum fyrir leik hjá Blackburn nokkrum dögum síðar.

Joel Santana, þjálfari suður-afríska landsliðsins, sagði á blaðamannafundi að hann hefði valið besta hugsanlega liðið fyrir Álfukeppnina og er því greinilega búinn að fá nóg af uppátækjum Benni McCarthy sem oft hefur verið í vandræðum með þjálfara og forráðamenn suður-afríska sambandsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×