Fótbolti

Öll fjölskylda Glódísar mætt til Vaxjö

Óskar Ófeigur Jónsson í Växjö skrifar
Myndin frá vinstri: Magnea Harðardóttir, Bára Bryndís Viggósdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Viggó Magnússon.
Myndin frá vinstri: Magnea Harðardóttir, Bára Bryndís Viggósdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Viggó Magnússon. Mynd/ÓskarÓ
Glódís Perla Viggósdóttir er aðeins 18 ára gömul en þegar komin með hlutverk í íslenska kvennalandsliðinu. Hún er einn af þremur aðalmiðvörðum íslenska liðsins og hefur byrjað marga af landsleikjum ársins.

Glódís Perla spilaði síðasta hálftímann í jafnteflinu á móti Noregi og tók þátt í að snúa leiknum á lokakaflanum í hennar fyrsta leik á stórmóti.

Glódís Perla fær góðan stuðning frá liðsfélögum sínum eins og mátti vel sjá þegar hún kom inn í leikinn á móti Norðmönnum. Hún fær einnig mikla hvatningu að heiman og fjölskylda hennar var mætt til Vaxjö í dag.

„Þau eru hérna mamma, pabbi og litla systir mín. Amma og afi eru að ég held að koma á morgun. Það er rosalega gaman að þau komi öll til að horfa," segir Glódís Perla brosandi og hún kvartar ekki heldur yfir liðsfélögunum.

„Þetta er rosalega góður hópur. Þetta er mjög gaman því það eru allir svo jákvæðir og þá sérstaklega eftir Noregsleikinn því kom sjálfstraust og jákvæðni í hópinn," segir Glódís Perla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×