Erlent

16 látnir eftir sprengjuárás í Mogadishu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Að minnsta kosti 16 manns eru látnir og 40 eru særðir eftir að sprengja sprakk í bíl í dag, í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu. BBC greinir frá.

Samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum sprakk sprengjan í Madina hverfinu, sem er í suðurhluta borgarinnar. Sprengjan sprakk á vinsælum markaði. Um er að ræða fyrstu árásina gegn óbreyttum borgurum eftir að nýkjörinn forseti landsins, Mohamed Abdullahi Mohamed, tók við völdum fyrr í mánuðinum.

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni en talið er líklegt að hryðjuverkahópurinn al-Shabab beri ábyrgð. Háttsettur aðili innan þess hóps hafði nýlega hótað árásum gegn stuðningsmönnum forsetans.

Hermenn frá Afríkusambandinu flæmdu hópinn frá borginni árið 2011 en herliðar á vegum samtakanna eru enn valdamiklir í sveitum landsins, raunar svo valdamiklir, að ríkisstjórn landsins ræður litlu sem engu á flestum svæðum í landinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×