Sport

Paul Ince finnst Liverpool liðið ekki frábært

Anton Ingi Leifsson skrifar
Paul Ince er spekingur BT Sports en hann lék meðal annars með Man. United og Liverpool á sínum ferli.
Paul Ince er spekingur BT Sports en hann lék meðal annars með Man. United og Liverpool á sínum ferli. vísir/getty

Paul Ince, fyrrum leikmaður Manchester United og Liverpool, segir að Liverpool-lið Jurgen Klopp sé enn ekki orðið frábært lið. Það þurfi að halda uppteknum hætti næstu árin til þess að geta talist sem frábært lið í sögunni.

Liverpool er með 25 stiga forystu á toppi enska boltans en deildin er nú í hléi vegna kórónuveirunnar. Ince segir þó að það dugi ekki til þess að verða kallað frábært lið þó að árangurinn sé góður.

„Það er erfitt að segja það að þeir séu með eitt besta liðið en það sem Liverpool hefur gert er frábært afrek. Mér finnst hins vegar gæði deildarinnar ekki hafa verið eins og þau voru áður,“ sagði Ince við Goal og hélt áfram:

„Eru þeir með frábært lið? Ég myndi ekki segja það. Þú verður að vinna þetta tímabil eftir tímabil til þess að vera með frábært lið. Þeir eru með efniviðinn og stjórann til þess að verða frábært lið því þannig lið halda áfram að vinna. Ef þeir vinna þetta í ár og á næsta ári, þá getum við byrjað að kalla þá frábært lið.“

Hann tekur dæmi um nokkur lið sem honum hefur fundist frábært í gegnum tíðina.

„Eins og Manchester City. Þeir eru með frábært lið. Liverpool hafa verið góðir síðustu tvö ár en þeir þurfa að halda áfram að vinna til þess að verða frábært lið. Þar tala ég um Arsenal-liðið, mörg lið United og Liverpool-liðið sem vann reglulega.“

„Þetta voru Evróputitlar hjá Liverpool. Hjá United var þetta tvenna, þrenna og deildartitlar. Chelsea-liðið með Drogba, Terry og Lampard var frábært. Liverpool þarf að halda áfram til þess að verða að frábæru liði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×