Þetta kom fram í máli Kára í áramótaþætti Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Fram hefur komið að Kári og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi fundað með Pfizer með það fyrir augum að tryggja íslensku þjóðinni bóluefni í gegnum rannsóknarverkefni.
Kári hefur jafnframt lýst yfir áhyggjum af því að ekki náist að bólusetja nema lítinn hluta þjóðarinnar á næsta ári, miðað við þá samninga sem liggja fyrir um kaup á bóluefni.
Væri mjög spennandi rannsókn
Kári sagði erfitt að meta gang viðræðna við Pfizer eins og þær standa einmitt á þessari stundu.
„Við höfum átt samræður við Pfizer. Þórólfur og ég áttum með þeim fjarfund um daginn og það er alveg ljóst að þeir sem eru að vinna við rannsóknir á þessu bóluefni hafa geysimikinn áhuga á því að fara í samvinnu við okkur um tilraun sem myndi felast í því að bólusetja sextíu prósent fullorðinna á Íslandi, og sjá hvort það myndi nægja til þess að kveða faraldurinn í kútinn á Íslandi,“ sagði Kári.
„Þetta er mjög spennandi vegna þess að menn eru búnir að vera að tala mjög mikið um hjarðónæmi um allan heim á síðustu mánuðum. En það er aðeins fræðilegt hugtak. Það eru engar tilraunir, engin gögn, sem sýna fram á hvernig hjarðónæmi virkar. Þannig að þetta byði upp á þann möguleika að prófa þá hugmynd, þessa hugmynd um hjarðónæmi.“
Þá lýsti hann miklum áhuga vísindamanna Pfizer á tilrauninni á Íslandi.
„En vandamálið er að þeir þurfa þá að geta tryggt nægilega mikið bóluefni frá fyrirtækinu og það er það sem þeir eru að reyna þessa dagana. Þannig að við eigum býsna góða fylgismenn innan Pfizer en hvort það dugar vitum við ekki enn.“
„Argaðist“ síðast í Pfizer í gær
Inntur eftir því hvenær hann byggist við að liggi fyrir hvort af rannsókninni verði kvaðst Kári einmitt hafa „argast í þeim“ [Pfizer] síðast í gær.
„Og fékk til baka þau svör að þeim fyndist þau vera að hreyfa sig mjög hratt. Þannig að það er greinilegt að mælikvarði minn og þeirra á hraða virðist vera svolítið öðruvísi.“
Þessu bæri þó öllu að taka með miklum fyrirvara.
„En þetta er allt saman mjög óvíst og að minnsta kosti að við eigum ekki að reiða okkur á þennan möguleika einan heldur leita fyrir okkur víðar.“
Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu í dag að Ísland hafi þegar tryggt sér bóluefni sem er mun meira en á þarf að halda. „Ísland er samferða Evrópusambandinu og hinum Norðurlöndum og reiknað er með því að stór hluti Íslendinga verði bólusettur fyrir sumarið,“ segir í tilkynningu.
Viðtalið við Kára má hlusta á í heild í spilaranum ofar í fréttinni.