Erlent

Trump frestar því að sam­starfs­menn hans fái bólu­efni gegn Co­vid-19

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Trump segist sjálfur ekki fá bólusetningu strax en hann hlakki til að fá hana þegar þar að komi.
Trump segist sjálfur ekki fá bólusetningu strax en hann hlakki til að fá hana þegar þar að komi. AP/Patrick Semansky

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að fresta þeim fyrirætlunum að samstarfsmenn hans í Hvíta húsinu skyldu verða með þeim fyrstu í Bandaríkjunum til þess að fá bóluefni gegn Covid-19.

Frá þessu greindi Trump á Twitter í gær skömmu eftir að New York Times hafði greint frá því að þeir starfsmenn Hvíta hússins sem starfa næst forsetanum yrðu á meðal þeirra fyrstu til að vera bólusettir í landinu.

Í tísti sínu sagði Trump að starfsmenn í Hvíta húsinu myndu vera bólusettir síðar nema ítrustu nauðsyn bæri til. Sjálfur kvaðst hann ekki fá bóluefni á næstunni en hann hlakkaði til þess að vera bólusettur þegar þar að kæmi.

Dreifing á bóluefni Pfizer og BioNTech gegn Covid-19 hefst í dag í Bandaríkjunum. Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Bandaríkjamenn grátt en hvergi í heiminum hafa fleiri greinst með veiruna eða látist vegna Covid-19. Tala látinna nálgast nú 300 þúsund manns.

Bóluefni Pfizer og BioNTech er það fyrsta sem fær leyfi hjá Bandarísku lyfjastofnuninni (FDA) og nú er komið að því að dreifa efninu um landið.

Heilbrigðisstarfsmenn og íbúar á öldrunarheimilum verða fyrstir til að fá bólusetningu en gert er ráð fyrir að hægt verði að bólusetja um þrjár milljónir manna í fyrstu atrennu.

Fleiri bóluefni eru nú á lokastigum rannsókna og er vonast til að þau komi á markað í upphafi næsta árs eða jafnvel fyrr.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×