Erlent

Átta látnir eftir upp­þot í fangelsi á Sri Lanka

Atli Ísleifsson skrifar
Aðstandendur fanga í Mahara-fangelsinu biðla til lögreglumanns fyrir utan fangelsið sem er að finna í úthverfi höfuðborgarinnar Colombo.
Aðstandendur fanga í Mahara-fangelsinu biðla til lögreglumanns fyrir utan fangelsið sem er að finna í úthverfi höfuðborgarinnar Colombo. AP

Að minnsta kosti átta eru látnir og 52 slasaðir eftir uppþot fanga í fangelsi á Sri Lanka. Talsmaður yfirvalda segir að til átaka hafi komið milli fanga og fangavarða.

Fangarnir eru sagðir hafa verið að mótmæla aðstæðum í fangelsinu vegna mikillar fjölgunar kórónuveirusmita í fangelsum landsins og krafist þess að mörgum verði veitt snemmbúin reynslulausn.

Ajith Rohana, talsmaður lögreglu, segir að fangaverðir hafi neyðst til að beita valdi til að ráða niðurlögum óeirðanna í Mahara-fangelsinu í úthverfi höfuðborgarinnar Colombo.

Alls hafa um þúsund fangar á Sri Lanka greinst með Covid-19 í fangelsum landsins sem flest öll eru ofsetin. Eru fangarnir um 26 þúsund talsins í fangelsum sem eiga að geta hýst 10 þúsund fanga.

Smittilfellum á Sri Lanka hefur fjölgað mikið síðasta mánuðinn í kjölfar tveggja hópsýkinga - í vefnaðarvöruverksmiðju annars vegar og á fiskmarkaði hins vegar.

Alls hafa verið skráð um 23 þúsund tilfelli kórónuveirusmita á Sri Lanka frá upphafi faraldursins og þá hafa 116 dauðsföll verið rakin til sjúkdómsins Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×