Tónlist

Föstudagsplaylisti Ragnheiðar Elísabetar

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Ragnheiður Elísabet í Mengi, þar sem hún starfar sem verkefnastýra.
Ragnheiður Elísabet í Mengi, þar sem hún starfar sem verkefnastýra. Daniele Girolamo

Ragnheiður Elísabet setti saman föstudagslagalista vikunnar fyrir Vísi. Á lista Ragnheiðar kennir ýmissa grasa en hún segir að tónlistarsmekk sínum mætti lýsa sem margbrotnum persónuleika.

Listinn er meðal annars samsettur af hinum ýmsu listamönnum sem hún hefur unnið með í gegnum árin í listhúsinu Mengi en þar starfar hún sem verkefnastýra.

Á listanum eru líka „gullmolar frá Spilverkinu, ömmu lo-fi, Trabant og nýrri plötuútgáfu.“

Útgáfan sem um ræðir heitir Agalma og var stofnuð af Ragnheiði og kollega hennar Guðmundi Arnalds árið 2019.

„Agalma plötuútgáfa leggur áherslu á spunalist og má vænta safnplötu frá henni um jólin þar sem margir listamannanna sem gefnir hafa verið út koma saman í svokallaðri sóttkvíarsnældu,“ segir Ragnheiður.

Í kófinu hefur Mengi ekki setið auðum höndum að sögn Ragnheiðar og hefur staðurinn sent út úr tómu Mengi á meðan á samkomubanni stendur, undir yfirskriftinni Tómamengi.

Um þessar mundir stundar Ragnheiður nám við Hússtjórnarskólann í Reykjavík og mælir sérstaklega með lagalistanum fyrir þá sem stunda þá stórskemmtilegu iðju að vefa eða vinna í öðru handverki. Listinn ætti að vera um það bil af þeirri lengd „sem tekur að prjóna vinstri vettling.“

„Í Bíó Paradís er nú í sýningu ný heimildarmynd um skólann fyrir áhugasama en þar er farið yfir sögu hans og viðtöl tekin við fyrrum nemendur sem hafa stundað námið sem senn gæti runnið sitt skeið,“ segir Ragnheiður að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.