Innlent

„Erfitt að geta ekki sýnt þetta mannlega“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Flókinni ummönnun gjörgæslusjúklinga með COVID-19 fylgir mikið álag að sögn hjúkrunarfræðings á deildinni. Sár myndist undan hlífðarbúnaði og þá taki skortur á mannlegri snertingu á.

Fjórir liggja nú á gjörgæsludeild Landspítalans vegna Covid- 19 og tveir eru á öndunarvél.  Allt heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir fólki með Covid þarf að klæðast hlífðarbúning frá toppi til táar og það reynir á. 

Við ræddum við Þorbjörgu S. Sigurðardóttur gjörgæsluhjúkrunarfræðing sem var í smá pásu frá umönnun á gjörgæslu í dag um starfið á deildinni og hvernig er að vera alltaf í hlífðarfötum í vinnunni.  Hún sinnir Covid-19 veikum á deildinni. 

„Eftir tvo tíma í búning er maður alveg búin að fá nóg. Maður fær svona innilokunarkennd, þetta er bara rosalegt álag. Við erum alveg að fá sár á andlitið undan grímunni, maður er með ertingu í hálsinum og er þurr því maður drekkur miklu minna en annars í búning.  Maður verður því  slappur. Maður er gjarnari á að fá höfuðverk. Þannig að það eru svona ýmsir fylgikvilla. Þetta hefur alveg hellingsáhrif,“ segir Þorbjörg. 

Hún segir þetta líka erfitt fyrir sjúklingana.

„Þetta er ekki bara erfitt fyrir okkur heldur líka fyrir sjúklinganna. Það er erfitt fyrir okkur að eiga samskipti við sjúklingana, þeir eiga erfitt með að skilja okkur með grímur og maska fyrir andlitum okkar. Þá er ekki þessi mannlega snerting sem er svo mikilvæg í umönnun.  Mikið af okkar tjáningu fer fram með andlitstjáningu og við getum ekki sýnt hana í þessum búning. Svo ertu að tala við aðstandendur og maður getur ekki sýnt þessa tjáningu sem maður gerir með andliti og öðru undir venjulegum kringumstæðum. Þetta verður allt svo miklu ópersónulegra,“ segir Þorbjörg sem var með þessum orðum búin með pásuna á gjörgæslu og þurfti  að drífa sig í hjúkrunarstörfin.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.