Fótbolti

„Völlurinn ekki eins góður og við viljum hafa hann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Starfsmaður Laugardalsvallar ber sand í völlinn í dag í undirbúningnum fyrir leikinn við Belga á miðvikudagskvöldið.
Starfsmaður Laugardalsvallar ber sand í völlinn í dag í undirbúningnum fyrir leikinn við Belga á miðvikudagskvöldið. Instagram/@laugardalsvollur

Það hefur verið mikið álag á Laugardalsvellinum síðustu daga og það er einn leikur eftir enn sem fer fram á miðvikudagskvöldið. Starfsmenn Laugdalsvallar eru á fullu að vinna í vellinum milli leikja.

Það var ekki mikið að gerast á Laugardalsvelli fram eftir sumri en það hefur verið spilað ört á vellinum að undanförnu.

Athygli vakti þegar sett var vökvunarkerfi í Laugardalsvöllinn aðeins mánuði fyrir leikinn á móti Englandi og það hefur heldur ekki farið fram hjá neinum hvar skurðirnir voru. Völlurinn hefur verið mjög laus í sér þar sem hann var grafinn upp í ágúst.

Svona skemmdir mátti sjá á Laugardalsvelli á leik Íslands og Danmerkur í gær.vísir/vilhelm

Nú hafa farið fram tveir landsleikir á vellinum á síðustu fimm dögum og Belgaleikurinn verður spilaður þar á miðvikudagskvöldið.

Starfsmenn Laugardalsvallar sögðu frá ástandi vallarins í færslu á Instagram síðu vallarins.

„Dagarnir eru langir þessa stundina. Völlurinn ekki eins góður og við viljum hafa hann og eyðum við okkar öllum stundum að gera hann betri og betri og eins góðan og við getum,“ segir í færslunni.

„Strákarnir eiga skilið að æfa og keppa við bestu aðstæður og það erum við að reyna gefa þeim á þessum erfiða árstíma,“ segir enn fremur.

Völlurinn gæti samt farið illa á miðvikudagskvöldið því það er spáð rigningu fram eftir deginum og grasvöllurinn gæti verið mjög blautur og þungur þegar leikurinn fer fram.

Hér fyrir neðan má sjá færsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×