Innlent

Segir tvenn af­drífarik mis­tök hafa verið gerð í að­gerðum gegn far­aldrinum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Beðið í röð eftir að komast í skimun.
Beðið í röð eftir að komast í skimun. Vísir/Vilhelm

Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, telur að þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins hér á landi orsakist af tilslökunum aðgerða innanlands. Hann segir tvenn afdrífarík mistök hafa verið gerð í aðgerðum gegn Covid-19.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í grein Jóns Ívars í Morgunblaðinu í dag sem ber titilinn Hver er leiðin út úr kófinu. Þar fer Jón Ívar yfir stöðuna eins og hún horfir við honum. Hann segir að í byrjun september hafi Íslendingar siglt í meðalhófi, lífið hafi verið í eins nálægt eðlilegu róli og hægt sé miðað við aðstæður.

Segir Jón Ívar að þann 7. september, þegar slakað var á aðgerðum innanlands, hafi þriðja bylgjan fylgt í kjölfarið.

Jón Ívar er prófessur við læknadeild Harvard-háskóla.Facebook

„Því miður var slakað á aðgerðum innanlands 7. september, smitstuðullinn rauk upp, og þetta olli því að þriðja bylgjan byrjaði viku seinna. Einstaklingsbundnar smitvarnir innanlands skipta nefnilega meira máli en aðgerðir á landamærum,“ skrifar Jón Ívar.

Mistök sem valdið hafi miklu heilsufarslegu og efnahagslegu tjóni

Flestir hafi áttað sig á því að það sé tálsýn að halda að Ísland geti verið veirufrítt land. 

„Sóttkví á landamærum skrúfaði fyrir ferðamannastraum sem slökkti lífsneistann í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Þannig hafa á undanförnum vikum verið gerð tvenn afdrifarík mistök í aðgerðum gegn Covid, þ.e.a.s. farið í mjög harðar aðgerðir á landamærum og of mikla slökun á aðgerðum innanlands. Þessi mistök hafa valdið miklu heilsufarslegu og efnahagslegu tjóni,“ skrifar Jón Ívar.

Segir hann að spóla ætti til baka í aðgerðir sem voru í gildi fyrir 7. september, en eins metra reglan tók þá til að mynda gildi í stað fyrir tveggja metra regluna. Nauðsynlega þurfi að viðhalda smitstuðli undir einum þar til meirihluti þjóðarinna er bólusettur. Þegar stuðullinn er kominn undir einn mætti slaka örlítið á aðgerðum á landamærum, halda áfram skimun en breyta sóttkví í heimkomusmitgát.

„Þegar bóluefni koma er ekki víst hversu áhrifarík þau verða og því er hugsanlegt að halda þurfi áfram lágmarkssmitvörnum í eitt ár í viðbót. Það er mikilvægt að halda smitstuðli undir einum en jafnframt að sigla í meðalhófi og stöðugt að meta hvort lækningin sé verri en sjúkdómurinn.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×