Fótbolti

Hólmbert verður liðsfélagi Birkis á Ítalíu

Sindri Sverrisson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson fagnar eftir að hafa komið Íslandi yfir gegn Belgíu.
Hólmbert Aron Friðjónsson fagnar eftir að hafa komið Íslandi yfir gegn Belgíu. vísir/getty

Landsliðsmaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson mun spila með Brescia í ítölsku B-deildinni í fótbolta í vetur.

Þessu greinir mbl.is frá í dag og segir að Hólmbert muni ferðast til Ítalíu á morgun. Hann kemur til Brescia frá norska félaginu Aalesund þar sem hann hefur raðað inn mörkum í úrvalsdeildinni í ár, eða skorað alls 11 mörk í 15 leikjum.

Hólmbert, sem skoraði eina mark Íslands í 5-1 tapinu gegn Belgíu í síðasta landsleik, verður nú einnig liðsfélagi Birkis Bjarnasonar hjá félagsliði en Birkir kom til Brescia í byrjun árs.

Klippa: Markið sem Hólmbert skoraði á móti Belgum

Hólmbert, sem er 27 ára gamall, hefur verið hjá Aalesund frá árinu 2018 en hann er uppalinn hjá HK. Hann hefur einnig leikið með Fram, KR og Stjörnunni hér á landi, og verið hjá Celtic í Skotlandi og Bröndby í Danmörku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.