Sport

Öskureið á blaðamannafundi eftir að mótherji hennar fór af velli í hjólastól

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kiki Bertens var sárþjáð eftir leikinn eða var hún að leika þetta?
Kiki Bertens var sárþjáð eftir leikinn eða var hún að leika þetta? Getty/Tim Clayton

Ítalska tenniskonan Sara Errani sakaði mótherjann sinn um leikaraskap eftir að hafa tapað fyrir henni á opna franska meistaramótinu í tennis sem stendur nú yfir á Stade Roland Garros tennisvöllunum í París.

Sara Errani frá Ítalíu og Kiki Bertens frá Hollandi mættust í svakaleik í annarri umferð opna franska meistaramótinu í tennis.

Kiki Bertens yfirgaf völlinn í hjólastól eftir sigurinn en Sara Errani sakaði hana um leikaraskap. Bertens féll í jörðina eftir sigurstigið og virtist þá vera með krampa í öllum skrokknum.

Kiki Bertens er fimmta á styrkleikalista mótsins en Sara Errani fékk ekki röðun. Kiki Bertens vann á endanum 7-6, 7-6 (5), 3-6 og 9-7 í leik sem tók þrjá klukkutíma og ellefu mínútur.

Kiki Bertens virtist vera að glíma við meiðsli aftan í læri í leiknum. Það leit þannig út að hún væri að sýna mikla þrautseigju við að klára leikinn en það voru þó ekki allir á því að hún hafi verið meidd.

Ítalinn var þannig allt annað en sátt á blaðamannafundi eftir leikinn og hraunaði yfir andstæðinginn sinn. Í leiknum sjálfum hafði Sara Errani gert grín að Bertens fyrir að haltra og hún neitaði síðan að þakka henni fyrir leikinn.

Kiki Bertens féll í jörðina eftir sigurinn og lá þarf í átta mínútur áður en starfsmenn mótsins sóttu hjólastól og hjálpuðu henni til búningsklefa.

„Ég er ekki hrifinn af því þegar einhver er að plata mig. Hún fór af velli í hjólastól og þegar ég sá hana borðandi á veitingastaðnum þá var allt í lagi með hana,“ sagði Sara Errani á blaðamannafundi eftir leikinn.

Kiki Bertens neitaði þessum ásökunum og sagði að hún væri fyrir löngu búin að reyna fyrir sér sem leikari ef hún gæti leikið svona meiðsli. „Ég skil pirringinn hennar. Hún fékk sín tækifæri en nýtti þau ekki,“ sagði Kiki Bertens.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×