Sport

Ekki mikill kostnaðar­munur á að reisa nýja höll fyrir 5.000 eða 8.600 á­horf­endur

Atli Ísleifsson skrifar
Starfshópurinn segir æskilegast að nýr þjóðarleikvangur fyrir inniíþróttir verði í Laugardalnum.
Starfshópurinn segir æskilegast að nýr þjóðarleikvangur fyrir inniíþróttir verði í Laugardalnum. Vísir/Vilhelm

Ekki er mikill munur á kostnaði við byggingu þjóðarleikvangs fyrir innanhússíþróttir, sem ætlaður er fyrir 8.600 áhorfendur annars vegar og fimm þúsund áhorfendur hins vegar. Er munurinn áætlaður vera um 800 milljónir króna.

Þá þykir æskilegast er að nýr þjóðarleikvangur rísi í Laugardalnum í Reykjavík, en engin íþróttahöll á landinu uppfyllir nú alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til sérsambanda vegna alþjóðlegra keppna eða landsleikja í handbolta og körfubolta. Laugardalshöllin kemst nú næst því, en nauðsynlegt þykir að byggja nýtt mannvirki þar sem breytingar á þeim húsum sem til eru fyrir einstaka viðburði er bæði of kostnaðarsöm og ekki lausn til framtíðar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu starfshóps menntamálaráðherra, með aðkomu borgarinnar, og ætlað var að gera tillögur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir. Skýrslan var lögð fyrir borgarráð í gær.

Þrjár mögulegar staðsetningar í Laugardal

Starfshópurinn kannaði nokkra mögulegar staðsetningar fyrir nýjan þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir – þar á meðal Framsvæðið við Safamýri, Vetrarmýrina í Garðabæ, og Hlíðarenda – en var sammála um Laugardal sem fyrsta val.

Mörg svæði í Laugardalnum eru sögð geta borið hús af þessari stærðargráðu og eru þar nefnd svæði vestan við svæði Þróttar og svo lóð sem liggi samhliða Suðurlandsbraut, bæði austan við Laugardalshöll svo og lóð milli Suðurlandsbrautar og Laugardalshallar.

Laugardalshöllin var teiknuð af Gísla Halldórssyni arkitekt og reist af Reykjavíkurborg og Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Hún var vígð 6. desember árið 1965.Vísir/Vilhelm

Starfshópurinn leggur áherslu á nýtt hús yrði hannað með það að leiðarljósi að það uppfylli þörf fyrir stærri menningarviðburði, svo sem tónleika eða aðra menningarviðburði. Sömuleiðis að húsið gæti nýst sem sýningar- og ráðstefnuhús án mikils auka kostnaðar.

Litið til húss í Þrándheimi

Starfshópurinn lagði upp með að húsið yrði annaðhvort fyrir fimm þúsund áhorfendur eða rúmlega 8.000 áhorfenda hús sem myndi byggja á fyrirmynd frá Þrándheimi.

„Minna húsið fyrir 5.000 áhorfendur uppfyllir í dag allar kröfur til stærðar fyrir keppnishús. Hins vegar ef litið er til framtíðar og þeirrar þróunar sem hefur orðið í auknum kröfum til áhorfendafjölda bendir allt til að sú þróun muni halda áfram. Stærra hús myndi leysa án mikils aukakostnaðar húsnæðisþörf til langrar framtíðar auk þess að gefa meiri möguleika á nýtingu til menningarviðburða.

Úr íþróttahöllinni Spektrum í Þrándheimi sem starfshópurinn leit sérstaklega til. Spilaðir voru leikir á EM í handbolta fyrr á árinu í höllinni.Getty

Athygli vekur að samkvæmt kostnaðarútreikningi er ekki mikill munur á byggingu húss fyrir 8.600 áhorfendur og fyrir 5.000 áhorfendur eða um 800 milljónir króna,“ segir í skýrslunni.

Tekur ekki afstöðu

Heildarkostnaður við hús sem tæki 8.600 áhorfendur er í skýrslunni áætlaður 8,7 milljarðar króna, borið saman við 7,9 milljarða króna fyrir hús sem tæki fimm þúsund áhorfendur.

Grunnflötur slíkra húsa væri í svipaður í báðum tilfellum, um 19 þúsund fermetrar, en hús sem tæki 8.600 áhorfendur væri fjórum metrum hærra en smærri kosturinn. Rekstrarkostnaður stærra hússins er áætlaður 341 milljónir króna á ári, en rekstrarkostnaður smærra hússins 324 milljónir á ári.

„Starfshópurinn tekur ekki afstöðu til þess hvort byggt sé 5.000 áhorfenda hús eða stærra. Hins vegar verður að horfa til þess að aukakostnaður er ekki mikill og fleiri nýtingarmöguleikar felast í stærra húsi. Starfshópurinn leggur jafnframt til að við staðarval, hönnun og byggingu hússins verði gert ráð fyrir mögulegri stækkun síðar til að mæta auknum kröfum,“ segir í niðurstöðukafla skýrslunnar.

Aðkoma bæði ríkis og borgar

Lilja D. Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóra hafa óskað eftir því að hópurinn starfi áfram og vinni ítarlega rekstar- og tekjuáætlun fyrir verkefnið. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá HSÍ, KKÍ, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Reykjavíkurborg og ÍSÍ.

Starfshópurinn telur eðlilegt sé að kostnaði og rekstri mannvirkisins yrði skipt á milli ríkis og Reykjavíkurborgar. Ljóst sé að stærstur hluti starfseminnar – almennt íþróttastarf og kennsla – muni verða á vegum eða á kostnað sveitarfélagsins.

„Því þykir eðlilegt að sveitarfélagið byggi mannvirkið og taki ákvörðun um rekstrarfyrirkomulag. Hins vegar er um að ræða starfsemi sem tengist íþróttalandsliðum og uppfyllingu alþjóðlegra krafna svo unnt sé að keppa á alþjóðvettvangi hér á landi og því er aðkoma ríkisins nauðsynleg.

Aðkoma ríkisvaldsins getur orðið með ýmsum hætti. Ríkisvaldið getur komið beint að byggingu mannvirkisins með beinum fjárframlögum (stofnkostnaði) án eignarhlutdeildar en með kvöð um ákveðna nýtingu mannvirkisins sem og með styrkjum vegna æfingatíma og leikja landsliða. Allt byggir þetta á samtali milli ríkis og borgar um bestu lausnina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×