Sport

Heimsleikarnir byrja á afmælisdegi íslensku CrossFit drottningarinnar: Vill að fólk hafi hátt heima

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir hefur keppt á tíu heimsleikum og þetta verða aðeins aðrir heimsleikarnir sem hún missir af frá árinu 2009.
Anníe Mist Þórisdóttir hefur keppt á tíu heimsleikum og þetta verða aðeins aðrir heimsleikarnir sem hún missir af frá árinu 2009. Mynd/Instagram/anniethorisdottir

Fjórtándu heimsleikarnir í CrossFit hefjast í dag föstudaginn 18. september. Í dag heldur einnig ein öflugasta CrossFit kona sögunnar upp á afmælið sitt. Hún vill að fólk láti heyra í sér heima.

Anníe Mist Þórisdóttir fæddist 18. september 1989 og heldur því upp á 31 árs afmælið sitt í dag.

Anníe Mist var búin að vinna sér inn þátttökurétt á heimsleikunum sem áttu fyrst að fara fram í ágúst en fljótlega komu fréttir af því að hún yrði ekki með. Kórónuveiran sá síðan til þess að leikarnir voru færðir aftur um tvígang og enda nú að fara fram meira en mánuði eftir af upphaflega var áætlar. Heimsleikarnir verða líka tvískiptir með sérstökum fimm manna ofurúrslitum í október.

Það var gleðileg ástæða fyrir því að íslenska afrekskonan var ekki með að þessu sinni þar sem Anníe Mist fór í barnsburðarleyfi og eignaðist síðan dóttur sína Freyju Mist 10. ágúst síðastliðinn.

„Trúi því ekki að það sé loksins komið að heimsleikahelginni. Heimsleikarnir verða öðruvísi í ár en eitt breytist þó ekki. Þetta verður alvöru próf til að finna út hver séu þau hraustustu í heimi,“ skrifaði Anníe Mist Þórisdóttir á Instagram síðu sína.

Anníe Mist vill að fólk láti heyra í sér heima og sendi þar með jákvæða strauma til íþróttafólksins.

„Munið það allir sem eru þarna úti. Ykkar stuðningur og hvatning skiptir okkur öllu máli og líka þótt þið séuð ekki með okkur í ár. Hafið því hátt. 3-2-1 og af stað,“ skrifaði Anníe Mist.

Anníe Mist Þórisdóttir hefur samt komið að þessum heimsleikum því hún fékk sæti í fjögurra manna íþróttamannaráði sem hjálpaði til við ákvörðunartöku í kringum þessa óvenjulegu heimsleika í ár.

Anníe Mist Þórisdóttir keppti á sínum tíundu heimsleikum í fyrra þegar hún varð í tólfta sæti. Heimsleikarnir í ár verða aðeins aðrir leikarnir frá og með árinu 2009 þar sem Anníe Mist verður ekki að keppa um heimsmeistaratitilinn.

Anníe Mist missti einnig af leikunum árið 2013 eftir að hafa meiðst á baki. Hún kom aftur og náði silfrinu ári eftir.

Anníe Mist Þórisdóttir varð heimsmeistari í CrossFit 2011 og 2012, hún varð í öðru sæti 2010 og 2014 og komst síðan í fimmta sinn á verðlaunapallinn árið 2017 þegar hún náði þriðja sætinu.

Keppni á heimsleikunum er hafin en enginn mun vita neitt um framgöngu keppenda fyrr en í kvöld þegar CrossFit samtökin hefja útsendingu sína þar sem verður búið að taka saman æfingar allra keppenda sem eru víðs vegar um heiminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×