Bíó og sjónvarp

Ír­land varð fyrir valinu sem Ís­land í stór­myndinni sem Björk leikur í

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sumir gætu haldið að þessi mynd sé tekin á Íslandi. Það er hins vegar ekki rétt, hún er tekin á Írlandi.
Sumir gætu haldið að þessi mynd sé tekin á Íslandi. Það er hins vegar ekki rétt, hún er tekin á Írlandi. Vísir/Getty

Tökur eru að hefjast á Írlandi á víkingamyndinni The Northman. Sögusvið myndarinnar er Ísland í kringum árið 1000 en engu að síður segja heimamenn í Donegal á Írlandi að svæðið hafi verið valið sem tökustaður þar sem það líkist Íslandi á víkingatímum.

Myndin skartar skærum Hollywood-stórstjörnum, þar á meðal Nicole Kidman, Willem Defoe, Ethan Hawke, auk þess sem að Björk snýr aftur á hvíta tjaldið í fyrsta sinn frá því að hún lék í Dancer in the Dark um aldamótin.

Í frétt vefmiðilsins Donegan Daily er fjallað um það að tökur á myndinni séu hafnar og að náttúrulegt landslag írsku strandlínunnar í norðurhluta Írlands hafi verið valinn sem bakgrunnur myndarinnar, þrátt fyrir að hún eigi að gerast á Íslandi.

Á myndum sem fylgja fréttinni má sjá að tökulið og fylgifiskar þess eru mætt á svæðið og haft er eftir Ali Farren, íbúa á svæðinu í grennd við þar sem tökur fara fram, að heimamenn séu spenntir fyrir því að sjá Hollywood-stjörnurnar mæta á svæðið. Þá sé fjöldi heimamanna kominn í beina eða óbeina vinnu vegna myndarinnar.

„Okkur er sagt að þeir hafi valið svæðið vegna þess að það svipar til landslagsins á Íslandi. Samt sem áður viljum við meina að sólin skíni oftar hérna í Malin en á Íslandi,“ er haft eftir Farren.

The Northman mun fjalla um norrænan prins sem leitar þess að hefna föður síns. Björk er sögð leika norn í myndinni en komið hefur fram að dóttir hennar, Ísadóra, fari einnig með hlutverk í myndinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.