Sport

Segir hólfaskiptingu á íþróttaleikjum ekki hafa dugað nógu vel

Sindri Sverrisson skrifar
Það hefur verið tómlegt í stúkunum á knattspyrnuvöllum landsins undanfarið. Aðeins 20 áhorfendur eru leyfðir á hverjum leik - 10 frá hvoru liði.
Það hefur verið tómlegt í stúkunum á knattspyrnuvöllum landsins undanfarið. Aðeins 20 áhorfendur eru leyfðir á hverjum leik - 10 frá hvoru liði. VÍSIR/VILHELM

Þrátt fyrir að hundrað manns megi koma saman á sportbar til að horfa á fótboltaleik má sami fjöldi fólks ekki mæta til að horfa á fótboltaleik með berum augum á Íslandi í dag.

Þegar Íslandsmótið í fótbolta hófst í sumar giltu 200 manna samkomutakmarkanir á Íslandi. Sá fjöldi áhorfenda var því leyfður á leikjum, og máttu íþróttafélög skipta áhorfendasvæðum upp í 200 manna hólf með sérinngangi, salernisaðstöðu og veitingasölu fyrir hvert hólf. Hólfin máttu svo fljótlega vera 500 manna, allt þar til að skrúfað var fyrir íþróttastarf í lok júlí vegna uppgangs kórónuveirunnar hér á landi.

Til athugunar að leyfa áhorfendur

Þrátt fyrir tveggja metra fjarlægðartakmarkanir voru íþróttir með snertingu leyfðar að nýju frá og með 14. ágúst, en áhorfendur bannaðir (reyndar mega 10 áhorfendur frá hvoru liði mæta á fótboltaleiki). Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, var spurð út í rökin fyrir því á upplýsingafundi í dag:

„Það voru mikil brögð að því á íþróttaviðburðum fyrr í sumar að aðferðir þær sem voru notaðar til að takmarka áhorfendafjölda, varðandi hólfaskiptingu og þess háttar, dugðu ekki vel. Við vorum svo lánsöm þá að það voru ekki samfélagssmit í gangi, svo það urðu engar hópsýkingar. Nú er staðan svolítið önnur,“ sagði Kamilla en ljóst er að miklar tekjur eru í húfi fyrir íþróttafélög að ógleymdri skemmtun fyrir íþróttaáhugafólk. Sóttvarnalæknir ræður því hvort eitthvað breytist á næstunni.

„Þetta er eitthvað sem er í athugun, hvort það séu forsendur til að endurskoða þetta eftir því sem við náum betri tökum á því samfélagssmiti sem er í gangi, og eins ef að fólk áttar sig betur á því hve mikilvægt er að virða þessar samkomutakmarkanir sem eru í gildi,“ sagði Kamilla.


Tengdar fréttir

Áhorfendur ekki leyfðir um sinn

Hlutirnir gerast hratt á tímum kórónuveirufaraldursins og nú er orðið ljóst að áhorfendur verða ekki leyfðir á íþróttaleikjum hérlendis á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×