Sport

Snorri sló heimsmeistara og ólympíumeistara við | Besti árangur Íslendings

Sindri Sverrisson skrifar
Snorri Einarsson náði sér í 13 heimsbikarstig í dag.
Snorri Einarsson náði sér í 13 heimsbikarstig í dag. vísir/getty

Snorri Einarsson náði besta árangri sem íslenskur skíðagöngumaður hefur náð á heimsbikarmóti þegar hann keppti á móti í Meråker í Noregi í dag. Mótið var hluti af Ski Tour sem tilheyrir heimsbikarmótaröðinni.

Keppt var í 34 km göngu með frjálsri aðferð og hópræsingu í dag. Snorri endaði í 18. sæti, meðal annars fyrir framan Livo Niskanen frá Noregi, ríkjandi ólympíumeistara í 50 km göngu, og Martin Johnrud Sundby frá Noregi, ríkjandi heimsmeistara í 15 km göngu. 

Ræst var eftir stöðu á heimslista og var Snorri því númer 47 í röðinni. Hann byrjaði hins vegar vel og náði að halda sér í fremsta hópnum og komst fljótlega upp um 15-20 sæti. Með því að enda svo í 18. sæti fær hann 13 heimsbikarstig og er samtals kominn með 17 heimsbikarstig, en einungis 30 efstu sætin gefa slík stig. Hann fær 31,64 FIS-stig og bætir sig á heimslista.

Snorri var sjónarmun á eftir næstu tveimur keppendum í mark, en alls einni mínútu og 48 sekúndum á eftir sigurvegaranum, Alexander Bolshunov frá Rússlandi sem var langfyrstur.

Þetta var fjórða keppnin af alls sex á aðeins níu dögum á Ski tour. Snorri er í 24. sæti á mótaröðinni sem nú færist yfir til Þrándheims þar sem keppt verður í sprettgöngu á laugardag og 30 km eltigöngu með hefðbundinni aðferð á sunnudag.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.