Erlent

Vildi sanna að jörðin væri flöt með geim­ferð en lést þegar heima­gerð flaug hrapaði

Eiður Þór Árnason skrifar
Mike Hughes með annarri eldflaug sinni árið 2017.
Mike Hughes með annarri eldflaug sinni árið 2017. Vísir/EPA

Flugmaðurinn Mike Hughes lést í gær eftir að hafa brotlent gufuknúnni eldflaug sinni stuttu eftir flugtak nálægt Barstow í Kaliforníu.

Hinn 64 ára Huges sem hefur stundum gengið undir nafninu „brjálaði Mike“ var einna þekktastur fyrir það að vilja sanna að jörðin væri flöt. Hann vonaðist til þess að geta sannað þá kenningu sína með því að fara í út í geim.

Myndband sem birt var af atvikinu á Twitter sýnir eldflaugina steypast til jarðar fljótlega eftir að hún tekur á loft.

Flugskotið í gær var tekið upp og til stóð að sýna frá því í þáttaröð á bandarísku sjónvarpstöðinni Science Channel. Í þáttunum er fylgst með fólki sem hyggst fara út í geim á heimatilbúnum farartækjum.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins greinir frá því að Hughes hafi einungis verið úthlutað takmörkuðu fjármagni til þess að klára verkefnið.

Hann er sagður hafa byggt geimfar sitt ásamt aðstoðarfólki í bakgarðinum hjá sér fyrir um 2,3 milljónir íslenskra króna. Eldflaugin notaðist við gufu sem var þrýst í gegnum stút til þess að koma henni á loft.

Í yfirlýsingu frá Science Channel syrgja forsvarsmenn sjónvarpsstöðvarinnar Huges og segja að hann hafi látið lífið við að elta draum sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×