Enski boltinn

Segist verða þreyttur við það að horfa á Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry í leik á móti Liverpool á sínum tíma.
Thierry Henry í leik á móti Liverpool á sínum tíma. Getty/Shaun Botteril

Arsenal goðsögnin Thierry Henry talaði um leikstíl Liverpool liðsins undir stjórn Jürgen Klopp og þá sérstaklega um „þungarokkspressu“ liðsins.

Thierry Henry viðurkenndi að hann verði þreyttur þegar hann horfir á Liverpool spila fótbolta því ákefðin er svo mikil hjá leikmönnum liðsins og þeir hreyfa boltann svo hratt.

Thierry Henry hefur sérstaka ástæðu til að fylgjast vel með Liverpool leikjunum þessa dagana því hann var hluti af Arsenal liðinu 2003-04 sem kláraði tímabilið án þess að tapa deildarleik.

Eftir endurkomusigur Liverpool liðsins í gær þá á liðið ennþá möguleika á því að jafna þetta afrek Arsenal liðsins.

Liverpool hefur unnið 26 af 27 leikjum og gert eitt jafntefli. Arsenal vann 26 af 38 leikjum tímabilið 2003-04 og gerði tólf jafntefli. Markatala Arsenal liðsins í þessum 38 leikjum var +47 eða 73-26. Markatala Liverpool liðsins í vetur er líka +47 eða 64-17.



„Ákefðin og takturinn í ensku úrvalsdeildinni er mjög mikil,“ sagði Thierry Henry í sjónvarpsviðtali við Canal Plus.

„Þegar þú ert bara að horfa á Liverpool liðið spila þá verður þú þreyttur. Þeir hreyfa sig svo hratt,“ sagði Henry. Hann hrósaði líka Manchester City.

„Þegar þú ferð til Manchester City þá er kominn pressa á boltann áður en þú nærð að líta upp. Þegar þú ert búinn að ná stjórn á boltanum þá eru komnir þrír menn í kringum þig. Ákefðin í ensku úrvalsdeildinni er svakaleg,“ sagði Henry.

Liverpool náði aftur 22 stiga forystu á toppnum með 3-2 sigri á West Ham á Anfield í gærkvöldi. Það var átjándi sigur liðsins í röð.

Thierry Henry skoraði 30 mörk í 37 deildarleikjum þetta 2003-04 tímabil en hann er markahæsti leikmaður Arsenal í sögunni með 228 mörk í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×