Erlent

Stöðvaður á for­gangsak­rein með beina­grind um borð

Eiður Þór Árnason skrifar
Farþeginn tjáði sig ekki um málið.
Farþeginn tjáði sig ekki um málið. Vísir/AP

Segja má að ökumaður í Arizonaríki í Bandaríkjunum hafi verið stöðvaður fyrir undarlegar sakir nú á dögunum þegar hann var gripinn með forláta beinagrind úr plasti í einu farþegasætanna.

Athygli vakti að beinagrindin bar höfuðfat og klæði en umræddur bílstjóri var einn í bílnum þegar hann var stöðvaður á sérstakri forgangsakrein einungis ætlaðri bifreiðum með farþega um borð.

Tilraun hans til þess að komast fram hjá þeirri reglu gekk þó ekki betur en svo að hann var staðinn að verki og sektaður fyrir athæfið þegar lögregla tók eftir beinagrindinni sem var bundin við sætið með gulu reipi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ökumenn í Arizona reyna að komast upp með að keyra á umræddri forgangsakrein í óleyfi. Í apríl síðastliðnum var karlmaður til að mynda stöðvaður fyrir að reyna að dulbúa gínu sem farþega með derhúfu og sólgleraugum.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.