Fótbolti

Nantes blöskrar nýjasta útspil Cardiff í Emiliano Sala málinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nantes seldi Emiliano Sala til Cardiff City en leikmaðurinn náði aldrei að spila fyrir velska félagið. Hér minnast stuðningsmenn Argentínumannsins.
Nantes seldi Emiliano Sala til Cardiff City en leikmaðurinn náði aldrei að spila fyrir velska félagið. Hér minnast stuðningsmenn Argentínumannsins. Getty/Michael Steele

Cardiff City ætlar ekki að gefa sig í baráttunni fyrir því að þurfa ekki að borga kaupverð sitt fyrir Argentínumanninn Emiliano Sala sem náði ekki að spila fyrir félagið áður en hann fórst í flugslysi á leið til Wales.

Emiliano Sala lést 21. janúar 2019 þegar tveggja manna flugvél fórst í Ermarsundinu á leið sinni frá Frakklandi til Wales.

Cardiff City hefur neitað að greiða þær fimmtán milljónir punda sem félögin höfðu komið sér saman um. Velska félagið ætlar að láta hart mæta hörðu í þessu máli.



Ástæðan fyrir því að Cardiff City neitar að greiða þennan pening er að velska félagið telur sig hafa nægar sannanir fyrir því að lög hafi verið brotin þegar Emiliano Sala var leyft að fljúga frá Frakklandi til Wales í lítilli flugvél.

Nantes blöskrar nýjasta útspil Cardiff manna. Þeir saka forráðamenn Cardiff um að reyna að nýta sér þennan harmleik með því að reyna að blanda yfirvöldum í Fraklandi í málið.

Skýrsla um ástæður flugslyssins kemur væntanlega út í mars næstkomandi. En rannsóknarnefnd flugslysa, AAIB, hefur þegar gefið það út að kolmónoxíð hafi fundist í blóði Sala. Lík Emiliano Sala fannst 8. febrúar en lík flugmannsins hefur aldrei fundist.



Í september síðastliðnum úrskurðaði FIFA að Cardiff City yrði að borga fyrir leikmanninn og byrja á því að greiða fyrstu greiðslu sem var 5,3 milljónir punda. Carditt áfrýjaði þeim úrskurði og Íþróttadómstóllinn í Lausanne mun væntanlega taka málið fyrir í vor og dómur gæti þá fallið í júní.

Cardiff City heimtar að frönsk yfirvöld setji af stað rannsókn á þessu máli og velska félagið leggur þar áherslu á að fá ekki aðeins að vita ástæður fyrir því að flugvél Emiliano Sala hrapaði heldur vill CCFC einnig fá í gang rannsókn á notkun á ólöglegum flugvélum í franska fótboltaheiminum og þátttöku milligöngumanna í félagsskipum fótboltamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×