Erlent

Robert Abela nýr for­sætis­ráð­herra Möltu

Sylvía Hall skrifar
Robert Abela (t.v.) við kveðjuathöfn Joseph Muscat á föstudag.
Robert Abela (t.v.) við kveðjuathöfn Joseph Muscat á föstudag. Vísir/AP

Robert Abela hefur verið kjörinn formaður Verkamannaflokksins á Möltu og mun taka við stóli forsætisráðherra eftir að Joseph Muscat sagði af sér embætti í síðasta mánuði. Abela hlaut 57,9 prósent atkvæða en forveri hans í starfi sagði af sér vegna tengsla ríkisstjórnarinnar við morð á blaðakonu þar í landi.

Kallað hafði verið eftir afsögn hans vegna morðsins á rannsóknarblaðakonunni Daphne Caruana Galizia sem var myrt með bílsprengju árið 2017. Einstaklingar með sterk tengsl inn í ríkisstjórn Muscat eru grunaðir um aðild að morðinu og höfðu þrír stigið til hliðar frá störfum fyrir ríkisstjórnina vegna málsins, þar á meðal ferðamálaráðherra og efnahagsmálaráðherra.

Sjá einnig: Þrír stjórnmálamenn sagt af sér á Möltu



Galizia hafði verið að rannsaka spillingarmál tengd maltneskum stjórnmálamönnum. Muscat sagði hana hafa verið sinn helsta andstæðing en lofaði þó að handsama morðingja hennar. Það væri ólíðandi að einhver þyrfti að deyja vegna starfs síns og hún hefði einungis verið að sinna sínu starfi þegar hún var myrt.

Sonur Galizia hefur áður sagt ríkisstjórnina meðseka í morði hennar. Í desember síðastliðnum var maltneski viðskiptajöfurinn Yorgen Fenech ákærður fyrir aðild að morðinu.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra Möltu segir af sér í skugga morðmáls

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, mun láta af embætti á nýju ári. Kallað hefur verið eftir uppsögn hans í kjölfar morðs á maltneskri blaðakonu árið 2017. Einstaklingar með sterkt tengsl inn í ríkisstjórn Muscat eru grunaðir um aðild að morðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×