Erlent

Scholz verður kanslara­efni þýskra jafnaðar­manna

Atli Ísleifsson skrifar
Fjármálaráðherrann Scholz var borgarstjóri Hamborgar á árunum 2011 til 2018.
Fjármálaráðherrann Scholz var borgarstjóri Hamborgar á árunum 2011 til 2018. EPA

Olaf Scholz, fjármálaráðherra Þýskalands, verður kanslaraefni þýska Jafnaðarmannaflokksins (SPD) í kosningunum á næsta ári þar sem Angela Merkel mun láta af embættinu.

Þetta var tilkynnt í gær, en vinsældir Scholz hafa aukist síðustu mánuði á tímum faraldursins.

SPD hefur verið annar af tveimur stóru valdaflokkunum í þýskum stjórnmálum síðustu áratugina. Fylgi flokksins hefur minnkað mikið allt frá því að flokkurinn gerðist aðili að samsteypustjórn með Kristilegum demókrötum (CDU), flokki Merkel, árið 2013. Flokkurinn starfar enn með CDU í ríkisstjórn og mælist nú með um 14 prósent fylgi, og er þar með þriðju stærsti flokkurinn á eftir CDU og Græningjum.

Þingkosningarnar á næsta ári verða þær fyrstu í landinu frá lokum seinna stríðs þar sem sitjandi kanslari sækist ekki eftir því að gegna embættinu áfram. Merkel hefur starfað sem kanslari frá 2005.

Scholz er fyrrverandi borgarstjóri Hamborgar og beið nokkuð óvænt lægri hlut í formannskosningum innan SPD á síðasta ári. Nú er hins vegar ljóst að hann nýtur stuðnings formannstvíeykis flokksins, Norbert Walter-Borjans og Saskia Esken, til að verða kanslaraefni flokksins. Walter-Borjans og Eskan tilheyra vinstrivæng flokksins á meðan Scholz þykir lengra til hægri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×