Fótbolti

Reginn vísar á bug fullyrðingum um óviðunandi ástand vallarins í Egilshöll

Sindri Sverrisson skrifar
Úr leik í Egilshöll.
Úr leik í Egilshöll. vísir/andri

Fasteignafélagið Reginn hefur vísað á bug fullyrðingum um að gervigrasið í Egilshöll uppfylli ekki kröfur eða að viðhaldi vallarins sé ekki sinnt með fullnægjandi hætti.

KR-ingarnir Gunnar Þór Gunnarsson og Emil Ásmundsson hafa báðir slitið krossband í hné í knattspyrnuleikjum í Egilshöll á þessu ári. Í viðtali í Fréttablaðinu í dag sagði Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, að félagið væri með til skoðunar hvort það ætti rétt á bótum frá Regin þar sem að ástand vallarins væri ekki viðunandi. Knatthöllin ehf., dótturfélag Regins, rekur Egilshöllina.

Páll sagði að það væri mat KR-inga að Reginn hefði „vanrækt þá skyldu sína að sjá til þess að viðhald sé með þeim hætti að gervigrasið í Egilshöll uppfylli þau skilyrði að völlurinn sé hættulaus leikmönnum.“

Í yfirlýsingu sem Reginn sendi frá sér í dag er þeim fullyrðingum vísað á bug. Yfirlýsinguna má lesa hér að neðan.

Í tilefni af umfjöllun í fjölmiðlum um gervigras í Egilshöll

Vegna umfjöllunar um gervigras í Egilshöll nú í morgun vill Reginn hf. koma eftirfarandi á framfæri fyrir hönd dótturfélags síns, Knatthallarinnar ehf.

Gervigrasið í Egilshöll var prófað af viðurkenndri og óháðri rannsóknarstofu um mánaðarmótin febrúar-mars s.l. Niðurstöður prófana sýna að gervigrasið uppfyllir kröfur FIFA Quality og reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga. Völlurinn er með samþykkt vallarleyfi frá KSÍ. Viðhaldi er sinnt með reglubundnum hætti á fullnægjandi hátt samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda af þjónustuaðila og starfsmönnum Egilshallar.

Fullyrðingum um annað er vísað á bug.

Hið sama kemur fram í yfirlýsingu sem KSÍ hefur sent frá sér. Þar segir að vallarleyfi Egilshallar gildi út árið 2021.

Vegna umfjöllunar um gervigrasvöll Egilshallar í Reykjavík (leikflötinn, vallarleyfi, úttekt og fleira) vill KSÍ koma neðangreindu á framfæri.

Úttekt (prófun) á gervigrasi Egilshallar var framkvæmd í febrúar 2020 af Sports Labs Ltd., sem er óháð og viðurkennd rannsóknarstofa sbr. grein 8.4.3 í reglugerð KSÍ um knattspyrnuvelli. Vottun var útgefin af Sports Labs Ltd. og staðfest til KSÍ í mars 2020 með þeirri niðurstöðu að gervigrasið í Egilshöll standist settar kröfur.

Vallarleyfi Egilshallar (B-flokkur) var gefið út í mars 2020 og gildir út árið 2021. Samkvæmt reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga eru vallarleyfi gefin út til allt að tveggja ára í senn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×