Tíska og hönnun

Íslensk hönnun er íslensk hönnun þó að hún sé framleidd erlendis

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman kynnir SS2020 línu sína á HönnunarMars og selur toppa til styrktar UN Women.
Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman kynnir SS2020 línu sína á HönnunarMars og selur toppa til styrktar UN Women. Vísir/Vilhelm

„Línan sjálf er unnin um vetur. Við vorum því að hlusta mikið á alls konar suðræna tónlist, því að það var erfitt að vera að gera hressa sumarlínu í öllum appelsínugulu viðvörunum. Maður þurfti aðeins að setja sig í stellingar, að búa til einhvern suðrænan heim á vinnustofunni. Við vorum með rosalega mikið af blómum í kringum okkur á vinnustofunni“ segir fatahönnuðurinn Hildur Yeoman. Hún sýnir litríka og bjarta línu á HönnunarMars, sem hófst formlega í dag.

„Ég hlustaði mikið á diskó við hönnunina. Ég nota alltaf tónlist þegar ég er að hanna og það hjálpar mér mjög mikið. Það setur mann í stellingar og kemur manni í einhvern ákveðinn heim. í „Cheer up!“ erum að gera rosalega mikið af nýjum sniðum og vinna með mikið af nýjum efnum. Við höfum ekki verið að vinna með „mesh“ efni áður sem eru þá þunnt teygjanlegt efni, þú getur verið í undirkjól eða buxum og bol innan undir. Þetta er litrík lína og við höldum áfram að vera með snið sem ýta undir hið kvenlega form. Svo gerum við alltaf handgert skart með sem okkur finnst setja punktinn yfir i-ið.“

Hildur Yeoman SS2020Mynd/Saga Sig

Stykir UN Women á HönnunarMars

Mörg sniðanna úr þessari línu hafa verið lengi að fæðast. Sum hefur Hildur jafnvel sýnt áður á tískusýningum, en þá bara gert eitt eintak sérstaklega fyrir sýninguna.

„Þá kannski flík sem fór aldrei í sölu. Svo vinnum við það lengra og þróum það áfram þangað til það verður eitthvað sem hægt er að selja og er auðvelt að þvo. Það er svo margt sem að þarf að hugsa um. Sumt tekur bara lengri tíma að þróa og stundum fæðist líka eitthvað á lokasprettinum sem við ákveðum samt að setja ekki í framleiðslu strax.“

Í línunni eru meðal annars toppar sem vakið hafa mikla athygli. „Þegar ég var yngri var maður ekki maður með mönnum fyrr en maður var kominn í rétta djammtoppinn fyrir djammið,“ segir Hildur og hlær. Vinkonur hennar fögnuðu því mikið þessari viðbót við úrvalið í versluninni.

„Þetta er algjört „skvísupís,“ útskýrir hönnuðurinn stolt.

„Við gerðum sérstakt „drop“ af pallíettu djammtoppum fyrir UN women, sem verða til sölu í versluninni 24. og 25. júní. Þessir bolir eru partur af sjálfbærri þróun sem við viljum vera partur af. Við framleiðum alltaf lítið magn í einu og hendum aldrei efnum, en stundum nýtast efni illa við framleiðslu og þá er hægt að nýta það sem fellur til í skemmtileg verkefni eins og þetta. Salan á bolunum rennur óskert til UN Women.“

Partý í stað tískusýningar

Hildur er vön að halda stórar sýningar á hátíðinni en ákvað í ljósi ástandsins að hafa þetta örlítið umfangsminna í ár. HönnunarMars er með örlítið breyttu sniði en áherslan verður samt á hönnuði og hönnunina.

Hildur Yeoman SS2020Mynd/Saga Sig

„Við ætluðum að vera með stóra tískusýningu og vorum komin langt með að plana hana en svo þurfti að blása hana af, kannski sem betur fer því það var orðið rosalega erfitt að skipuleggja þetta,“ útskýrir Hildur. Hún ætlar því að halda stóra sýningu árið 2021.

„Ég mun því kannski aldrei þessu vant hafa meiri tíma til þess að skoða eitthvað sjálf, sem ég get aldrei gert. Ég hlakka til að fara að sjá hjá öðrum.“

HönnunarMars hefst í dag og stendur fram á sunnudag og Hildur er spennt fyrir því að Skólavörðustígurinn iði af mannlífi. Verslun Yeoman er á Skólavörðustíg 22b.

„Við erum nýkomin með nýja línu og ætlum að vera með partý í búðinni í dag frá 16 til 18 og léttar veitingar í boði. Búðin verður svo náttúrulega opin á HönnunarMars eins og venjulega og þá býðst kúnnum að taka þátt í hönnunarhappadrætti á meðan á Hönnunarmars stendur.“

Afmæliskveðjur frá starfsfólki verksmiðjunnar

Hildur er spenntust fyrir því að ná að vera í búðinni og hitta gesti og gangandi.

„Það eru svo margir sem koma á HönnunarMars til að skoða íslenska hönnun. Það er því gaman að hitta þetta fólk sem hefur kannski ekki komið í búðina.“

Hildur Yeoman SS2020Mynd/Saga Sig

„Við erum ótrúlega ánægð með kúnnahópinn okkar, svo mikið af flottum konum sem veita mér innblástur.“

Þó að Hildur sé mest að hanna og vinna á vinnustofunni þá vinnur hún stundum sjálf í versluninni. „Á vinnustofunni gerum við svo líka allt skartið sem er handgert. Annars erum við að framleiða í Eistlandi, prentum efnin í Ítalíu og líka í Búlgaríu.“

Hildur á í mjög persónulegum samskiptum við starfsfólkið sem framleiðir flíkurnar hennar og fær sendar frá þeim myndbönd og fallegar afmæliskveðjur. Hún segir að það sumir haldi að þó að hluti af því sem hannað er hér á landi sé framleiddur erlendis, séu þær flíkur ekki íslensk hönnun. Þetta sé misskilningur.

„Íslensk hönnun er alveg íslensk hönnun þó að þú framleiðir hana ekki á Íslandi.“

Hún bendir á að ef hún ætti að framleiða allar sínar vörur á Íslandi þyrfti hún samt alltaf að flytja efnin til landsins. „Þau eru ekki framleidd hér.“

Krefjast þess að gata flíkurnar

Að mati Hildar mætti athuga tollamálin hér á landi, sem gera mörgum hönnuðum erfitt fyrir. Hún þarf til dæmis að borga tolla af prufueintökum sem verksmiðjurnar senda til Íslands til að sýna henni eftir að hún sendir sniðin út.

„Tollurinn vill yfirleitt gera gat í þessar prufuflíkur, en ég get það ekki ef ég ætla að nota þær í myndatöku eða eitthvað slíkt, þetta er ekki söluvara en þarf að líta óaðfinnanlega út. Það vantar því miður skilninginn fyrir vinnuumhverfinu okkar “

Hún segist vera í góðum tengslum við sína fastakúnna, sem margir hafa fylgt henni í mörg ár. Á meðan samkomubanninu stóð ákvað Hildur að leggja áherslu á netverslunina og keyrði sjálf vörurnar heim til viðskiptavina ásamt eiginmanni sínum.

„Við vorum sem betur fer komin með vefsíðu. Svo vorum ég og maðurinn minn bara að taka saman pantanir og rötum nú í allskonar úthverfum Reykjavíkur. Þetta er ennþá lítið fyrirtæki þannig að við gátum dregið saman.“

Hildur Yeoman SS2020Mynd/Saga Sig

Einnig er töluvert um pantanir erlendis frá í gegnum netverslunina hilduryeoman.com. „Ferðamenn hafa alltaf verið frekar stór partur af okkar kúnnahóp hér en við höfum samt aldrei treyst á það, þeir hafa alltaf bara verið aukning, við hugsuðum um það fyrst sem bónus en svo urðu þeir frekar stór partur af þessu. En við erum með erlenda skrifstofu sem er að hjálpa okkur með erlenda áhrifavalda og fleira og það er alveg að skila sér. Við erum alltaf að fá fleiri og fleiri sölur að utan sem er skemmtilegt.“

Mikilvægt að styðja hönnuði 

Hildur segir að kórónuveirufaraldurinn hafi samt haft töluverð áhrif á reksturinn.

„Eins og hjá öllum í fatahönnunarbransanum þá fór maður að taka eftir þessu þegar þetta fór að gerast í Kína. Þannig að ég ákvað að flýta framleiðslunni þannig að ég var komin með flest allar vörurnar þegar Covid var að bresta á hérna og geymdi þær bara. “

Vinnustofan hennar Hildar er því full af nýjum flíkum í augnablikinu, sem hægt verður að skoða og versla á HönnunarMars í versluninni Yeoman.

„Það er frábært að fólk sé að styðja við íslenska hönnun, það er svo svakalega mikilvægt núna.“

Kúnnahópur Hildar er á breiðu aldursbili og fær hún allt frá fermingarstúlkum og upp úr til sín í búðina.

„Fólk er oft að kaupa þetta fyrir ákveðin tilefni en yfirleitt er þetta flíkur sem þú getur dressað „upp og niður.“ Þú notar kjólinn kannski fínt fyrstu skiptin og svo ferðu að nota hann í vinnuna líka og við buxur eða með peysu yfir eða eitthvað svoleiðis.“

Hildur segir að þessu fagni hún alltaf, enda sé gaman að flíkurnar séu notaðar oft og lengi.

„Við viljum að fólk fari vel með flíkurnar og eigi þær í langan tíma, það er snilldin við þetta. Þess vegna vöndum við okkur og gerum þetta vel. Einnig passa ég að hafa ekki of margar af hverri flík þannig að það séu allir í því sama.“

Óþarfi að þvo flíkur eftir hverja notkun

Það hefur alltaf verið markmið Hildar að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. „Við erum ekki að framleiða mikið og eigum aldrei stóran lager. Við viljum að fólk eigi fötin lengi og fari vel með þau, hendi þeim ekki á gólfið. Ég þreytist ekki á að segja fólki að það þarf ekkert að þrífa fötin sín svona mikið, ef maður er með fína kjóla er yfirleitt betra að handþvo hann eða þvo hann ekki oft. Stundum er líka nóg að viðra. Okkur hættir til að þvo fötin allt of mikið, kjóllinn er ekkert alltaf skítugur þó að þú notir hann einu sinni. Við hvetjum fólk líka til að gera við flíkurnar ef það kemur saumspretta eða eitthvað. Flíkin er ekki ónýt.“

Hildur Yeoman SS2020Mynd/Saga Sig

Öll afgangsefni geymir Hildur, svo ekkert fer til spillis. Nú er í vinnslu lína þar sem þessi afgangsefni verða vel nýtt. Sum efnin í hverri línu notar Hildur í nokkur snið af kjólum svo sem flestar finni eitthvað við sitt hæfi.

„Maður byrjaði á að klæða konurnar í kringum sig, í fjölskyldunni og svona. Það sem maður hefur alltaf lagt upp með er að hafa föt fyrir mismunandi líkamsvöxt. Það er kannski þess vegna sem maður nær til svona margra, þar sem þetta hentar svo mismunandi líkamsvexti..“

Hildur segir að hún reyni að hafa fjölbreytni í vali á fyrirsætum fyrir myndatökur og tískusýningar.

„Til dæmis hefur amma mín oft setið fyrir, hún er rétt rúmlega sjötug. Í tískusýningunum höfum við reynt að hafa mismunandi stærðir, aldur og konur af öllum kynþáttum. Við höfum verið að reyna að passa að hafa alla sýnilega svo það líði engum eins og hann sé út undan.“

HönnunarMars 2020 átti að fara fram í lok marsmánaðar eins og undanfarin ellefu ár, en vegna Covid-19 faraldursins var hátíðinni frestað til 24.-28. júní. Á hátíðinni leiðir framsækin hönnun og nýjungar saman sýnendur og gesti.

HönnunarMars fer fram með breyttu sniði í ár en tugir hönnuða taka þátt og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Nánar verður fjallað um hátíðina hér á Vísi næstu daga. Einhverjir viðburðir eru opnir lengur en þessa fimm daga og nánar má lesa um dagskránna á vef HönnunarMars.


Tengdar fréttir

Íslensk flík: Klæðumst því sem okkur er næst

#íslenskflík er verkefni Fatahönnunarfélags Íslands sem miðar að því að kynna íslenska fatahönnun og vekja athygli á því framúrskarandi hugviti og þeim fjölbreyttu vörum sem hér er að finna.

Afhjúpa sex metra speglahlið á milli Bankastrætis og Austurstrætis

Í dag verður hönnunarverkið Torg í spegli afhjúpað á Lækjartorgi. Hönnuðir verksins eru Arnar Ingi Viðarsson og Valdís Steinarsdóttir og er það hluti af HönnunarMars 2020. Torg í Speglun er hönnunarverk sem þjónar hlutverki almenns áningarstaðar og sem innsetningarverk sem brýtur upp sjónlínur áhorfendans.

HönnunarMars hófst í dag

Hátíðin HönnunarMars hófst formlega í dag. Á dagskrá eru áttatíu sýningar og hundrað viðburðir um allt höfuðborgarsvæðið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.