Enski boltinn

Þurfa að skipta um stöð til að geta séð allan leikinn með Gylfa og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton mæta Norwich í öðrum leik sínum eftir hlé en sá fyrsti verður á móti Liverpool.
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton mæta Norwich í öðrum leik sínum eftir hlé en sá fyrsti verður á móti Liverpool. EPA-EFE/Peter Powell

Allir leikir verða sýndir beint á breskum sjónvarpsstöðvum þegar enska úrvalsdeildin hefst á nýjan leik eftir kórónuveirufaraldur.

Sky Sports hefur verið með sjónvarpsréttinn í Bandaríkjunum ásamt BT Sport og Amazon Prime Video en breska ríkisútvarpið hefur verið með samantektarþættina Match of the Day og Match of the Day 2.

Vegna þeirrar kröfu að sýna alla leiki beint þar sem áhorfendur eru bannaðir á leikjunum út af smithættu fékk BBC nokkra leiki til að sýna beint. Það hefur hins vegar skapað vandamál.

Það var fyrir löngu búið að ákveða alla dagskrána á breska ríkisútvarpinu en menn þar á bæ hafa reynt að troða inn útsendingunum.

Fyrsta stóra vandamálið var leikur Norwich City og Everton á Carrow Road sem verður annar leikurinn sem breska ríkisútvarpið sýnir beint.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton heimsækja Norwich miðvikudaginn 24. júní næstkomandi og leikurinn verður sýndur á tveimur stöðvum. Ekki á sama tíma og ekki á sitthvorum tíma.

Það þarf nefnilega að skipta um stöð til að geta horfa á seinni hálfleikinn. Fyrri hálfleikurinn verður sýndur beint á BBC Two en til að sjá þann síðari þurfa áhorfendur að skipta yfir á BBC One.

Ástæðan er að fréttirnar þurfa að komast að á sínum tíma á BBC One og leikurinn getur því ekki byrjað á þeim tíma á þeirri stöð.

„Þetta er engin kjörstaða en fréttir eru mjög mikilvægar á þessum tímum,“ sagði heimildarmaður BBC við blaðamann Daily Star.

Fyrsti leikurinn sem verður sýndur á breska ríkisútvarpinu er leikur Bournemouth og Crystal Palace á næsta laugardag.

Fyrstu tveir leikirnir í ensku úrvalsdeildinni eftir kórónuveirufaraldurinn verða tveir frestaðir leikir sem verða spilaðir annað kvöld. Fyrsta heila umferðin verður svo um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×