Sport

Segir að Serena myndi elska að spila á Opna bandaríska í New York

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Serena Williams myndi elska að vinna Opna bandaríska enn einu sinni.
Serena Williams myndi elska að vinna Opna bandaríska enn einu sinni. Getty/Tim Clayton

Patrick Mouratoglou, þjálfari Serenu Williams, segir að tennisstjarnan sé meira en klár fyrir Opna bandaríska meistaramótið í tennis sem hefst í lok ágúst mánaðar.

Hin 38 ára gamla Serena átti erfitt uppdráttar á síðasta ári en hún komst samt alla leið í úrslit mótsins þá.

„Hún er að koma til baka til þess að vinna risamót, það er markmiðið hennar,“ sagði Mouratoglou í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC.

Serena hefur unnið Opna bandaríska sex sinnum á ferlinum og vann Opna Auckland-mótið í janúar á þessu ári, hennar fyrsti titill síðan hún varð móðir í september 2017. Virtist hún vera komin að nokkru leyti í sitt gamla form þegar kórónufaraldurinn skall á. 

Það er því spurning hvort hún nái upp sínum besta leik á mótinu í New York. Mótið er þó í hættu þar sem Novak Djokovic og Rafael Nadal hafa báðir talað um hversu óspennandi það er að spila á tómum velli sem og leikmenn gætu þurft að vera í einangrun nær allt mótið. 

Þá sagði Mouratoglou að það gæti reynst Serenu erfitt að keppa ef hún má ekki hitta dóttur sína á meðan keppni stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×