Sport

Eins gott að Hafþór keppir ekki við Eddie Hall í sjómanni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Devon Larratt fór illa með Hafþór Júlíus Björnsson í sjómanni eins og sjá má hér.
Devon Larratt fór illa með Hafþór Júlíus Björnsson í sjómanni eins og sjá má hér. Skjámynd/Youtube

Hafþór Júlíus Björnsson og Eddie Hall eru litlir vinir og undirbúa sig nú af kappi fyrir að mætast í hnefaleikahringnum í Las Vegas.

Lesendur hafa mikinn áhuga á heimsmethafanum og „Fjallinu“ úr „Game Of Thrones“ og því hafa menn verið að leita að fréttum af íslenska kraftatröllinu sem ætlar nú að breyta sér í hnefaleikamann á einu ári.

Í tilefni af því að opinberar deilur Hafþórs og Eddie Hall hafa stolið athyglinni að undanförnu þá hafa þeir á Sportbible grafið upp að þeirra mati vandræðalegt tap Hafþórs í sjómanni frá árinu 2015.

Hafþór Júlíus Björnsson reyndi sig á móti atvinnumanninum Devon Larratt.

Larratt var þarna næstum því 90 kílóum léttari en Hafþór og Íslendingurinn hefði því átt að öllu eðlilegu að vera alvöru andstæðingur fyrir hann. Annað kom á daginn því Devon átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Hafþór Júlíus að velli.

Larratt var aðeins 102 kíló á þessum tíma en Hafþór er auðvitað meira en 190 kíló auk þess að vera vel yfir tvo metra á hæð.

Larratt er náttúrulega atvinnumaður í sjómanni og yfirburðir hans eru svo miklir að hann er að kenna Hafþóri tökin um leið og hann vinnur hann sannfærandi.

Hafþór Júlíus Björnsson tók tapinu vel enda með það alveg á hreinu að hans styrkleiki liggur annars staðar en í sjómanni. Það var alveg ljóst að hann myndi sigra Devon Larratt í flestum kraftaþrautum.

Samkvæmt þessu myndbandi hér fyrir neðan er nokkuð ljóst að Hafþór má þakka fyrir að þurfa ekki að keppa við Eddie Hall í sjómanni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.