Sport

„Afar óraunhæft“ að halda ÓL 2021 ef ekki finnst bóluefni

Sindri Sverrisson skrifar
Anton Sveinn Mckee er eini íslenski íþróttamaðurinn sem tryggt hefur sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Anton Sveinn Mckee er eini íslenski íþróttamaðurinn sem tryggt hefur sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó. VÍSIR/EPA

Sérfræðingur í heilbrigðisvísindum segir afar óraunhæft að hægt verði að halda Ólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra árið 2021 verði ekki komið bóluefni við kórónuveirunni.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur sagst gera sér vonir um að bóluefni gegn einhverju formi kórónuveirunnar verði orðið að veruleika innan árs. Það hvort bóluefni verður til á svo skömmum tíma breytir öllu um möguleikann á að hægt verði að halda Ólympíuleikana, sem þegar hefur verið frestað um eitt ár. Þetta segir Devi Sridhar, sem er yfir alþjóðaheilbrigðisvísindasviði við Edinborgar-háskóla, á vef BBC. Hann tekur í svipaðan streng og Kári:

„Við heyrum frá vísindamönnum að þetta gæti verið mögulegt. Ég hefði haldið að við værum ári eða einu og hálfu ári frá því, en okkur skilst að mögulega takist þetta fyrr,“ sagði Sridhar um það hvenær bóluefni geti orðið til.

„Ef við fáum fram bóluefni á næsta árinu þá tel ég raunhæft að Ólympíuleikarnir verði haldnir. Bóluefnið er það sem breytir öllu, ef það virkar vel og er á viðráðanlegu verði. Ef að þessi vísindaárangur næst ekki þá er þetta mjög óraunhæft [að halda leikana]. Ég held að það hafi verið rétt mat að fresta leikunum um ár og endurmeta svo stöðuna,“ sagði Sridhar.

Lýst hefur verið yfir neyðarástandi til 6. maí í Japan vegna vaxandi útbreiðslu kórónuveirunnar, en Ólympíuleikarnir og Ólympíumót fatlaðra eiga að fara fram í Tókýó sumarið 2021.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×