Sport

Guðni Valur náði sínum besta árangri í kúluvarpi | FH með örugga forystu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðni Valur kastaði kúlunni 18,60 metra.
Guðni Valur kastaði kúlunni 18,60 metra. mynd/frí

FH er með sex stiga forskot á ÍR að loknum fyrri keppnisdeginum á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss.

Guðni Valur Guðnason, ÍR, náði sínum besta árangri í kúluvarpi innanhúss þegar hann varpaði kúlunni 18,60 metra. Sigur hans var öruggur en næsti menn, Kristján Viktor Kristinsson og Tómas Gunnar Gunnarsson, köstuðu báðir 15,48 metra.

Í 400 metra hlaupi kvenna varð FH-ingurinn Þórdís Eva Steinsdóttir hlutskörpust á 56,33 sekúndum. Kormákur Ari Hafliðason úr FH vann 400 metra hlaup karla á tímanum 48,61 sekúndu.

Eva María Baldursdóttir, HSK/Selfossi, vann hástökk kvenna og jafnaði sinn besta árangur með stökki upp á 1,76 metra. FH-ingurinn Hekla Sif Magnúsdóttir hrósaði sigri í þrístökki kvenna (11,63 metrar). Ingi Rúnar Kristinsson vann stangarstökk karla (4,3 metrar).

Í 60 metra hlaupi karla kom Ari Bragi Kárason, FH, fyrstur í mark á 6,98 sekúndum sem er besti árangur hans á tímabilinu. Hafdís Sigurðardóttir vann nauman sigur í 60 metra hlaupi kvenna á 7,68 sekúndum.

Arnar Pétursson, sem gekk nýverið aftur í raðir Breiðabliks, vann sigur í 1500 metra hlaupi karla á 4:07,97 mínútum. FH-ingurinn Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir vann sigur í 1500 metra hlaupi kvenna á 5:03,72 mínútum.

Öll úrslit dagsins má sjá með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×